Skoðun

Í heimi þar sem hommar eru taldir þroskaskertir

Mamiko Dís Ragnarsdóttir skrifar

Ímyndum okkur samfélag þar sem það að vera hommi er ekki viðurkennt (sem raunin er því miður enn víða úti í heimi og hérlendis ennþá stundum). Í þessu samfélagi myndu fáir ráða homma í vinnu eða þurfa að eiga nokkur samskipti við þá. Eiginlega það eina sem almenningur veit er að hommar eru einkennilegir og hegða sér ekki rétt. Hinn stereótýpíski hommi er leikinn af Duster Hoffenman í vinsælu bíómyndinni ,,The Raining Man”. Þar er sýndur fullorðinn maður sem hefur takmarkaða stjórn á því hvernig hann er og þarf mikinn stuðning.

Það að vera hommi er bara til sem ,,greining” í þessu samfélagi. Þú getur aðeins sagst vera hommi ef þú ert kominn með hommagreiningu.

Sérfræðingar sem eru ekki sjálfir hommar hafa fundið leið til að greina homma. Útbúið hefur verið sérstakt próf og greiningarviðmið eftir því hversu mikið af ákveðnum hommaeinkennum er hægt að greina hjá einstaklingi.

Ef sá sem tekur þetta próf viðurkennir fúslega að hann hafi sofið hjá öðrum karlmanni og ætlar sér að gera það aftur skorar hann verulega hátt á þessu hommaprófi. Hann fær þá greininguna ,,dæmigerður hommi” sem er talið mjög alvarlegt. Þessi einstaklingur þarf þá líklega mjög mikinn stuðning í daglegu lífi rétt eins og The Raining Man.

Þeir hommar sem eru rosalega góðir í að þykjast vera ekki hommar, eru í vinnu, giftir konu og eiga börn með henni ná kannski greiningarviðmiðinu ,,hommaröskun".

Síðan er hægt að vera með ,,Aspergíus-heilkennið” sem dregið er af heiti grísks vísindamanns á fyrri hluta 19. aldar sem gerði tilraunir á ungum hommum. Hann vildi finna það út hvort þeir geta fylgt skipunum. Á þessum tíma ríkti blóðugt stríð á milli Grikklands og Kýpur og vísindamaðurinn var ráðinn til að athuga hvort hægt sé að gera hermenn úr einhverjum af þessum drengjum.

Ekki gera okkur einhverfum sama hlutinn og í þessu hræðilega samfélagi sem ég lýsti. Er rétt að tala um stigsmun á einhverfu? Er einhverfurófið ekki bara ,,mannrófið” og búið að setja orðið ,,einhverfa" fyrir framan? Ef ykkur finnst þið þurfa að tala um einhverfuróf þá getum við á nákvæmlega sama máta talað um ,,óeinhverfuróf”. Það eru bókstaflega allir á einhverju rófi.

Síðast en ekki síst þá langar mig að taka það fram að hvern einasta dag er fleira og fleira fólk að uppgötva að þeir séu einhverfir eftir að hafa t.d. lesið frásagnir einhverfra eða kynnst öðru einhverfu fólki.

Þurfum við virkilega greiningu til þess eins að vera trúað? Hvers vegna megum við ekki skilgreina okkur sjálf? Þykjum við of heimsk? Er ekki hægt að treysta okkur sjálfum til þess rétt eins og samkynhneigðu fólki á Íslandi er almennt treyst til að skilgreina sig sjálft?

Ást og friður elsku fólk sem nennir að lesa þetta og sérstakur knús á ykkur minnihlutahópana sem þurfa að berjast fyrir viðurkenningu ❤.

Höfundur er einhverfur.




Skoðun

Sjá meira


×