Bjarni var sæmdur orðunni þann 22. desember 2023 fyrir embættisstörf. Viljinn greindi fyrst frá en engar tilkynningar hafa borist vegna orðuveitingarinnar.
Stig orðunnar eru fimm: Keðja ásamt stórkrossstjörnu, stórkrossriddari, stórriddari með stjörnu, stórriddari og riddari. Flestir þeir sem eru sæmdir orðunni í upphafi árs eða í júní fá riddaraorðu. Orða Bjarna er næsthæsta stigs.
Bjarni, sem er lögfræðingur að mennt, var fyrst kosinn á þing árið 2003 og hefur setið þar síðan. Hann varð fjármála- og efnahagsráðherra árið 2013, forsætisráðherra í skammlífri ríkisstjórn árið 2017, aftur fjármála- og efnahgasráðherra árið 2017 í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem endurnýjaði umboð sitt í kosningunum 2021.
Bjarni sagði af sér embætti fjármálaráðherra á liðnu ári eftir athugasemdir umboðsmanns Alþingis á sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Nokkrum dögum síðar hafði hann stólaskipti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Hún varð fjármálaráðherra en Bjarni færði sig í utanríkisráðuneytið.