„Þarna er staðfest að setning reglugerðar hafi verið í andstöðu við mikilvæg réttindi Hvals hf. er varða atvinnufrelsi og eignarrétt. Og síðan hafi verið farið gegn stjórnskipulegu meðalhófi við töku þessarar ákvörðunar. Það er að öllu leyti í samræmi við það sem við höfum sagt frá öndverðu.“
Í álitinu segir umboðsmaður að þar sem að ástandið sem hafi leitt af ákvörðuninni væri liðið beini hann engum tilmælum til matvælaráðherra, nema að sjónarmið álitsins verði ráðherra í huga til framtíðar. Minnst er á þetta í tilkynningu stjórnarráðsins um málið.
„Mér finnst að niðurstaðan sé afvegaleidd í yfirlýsingunni á vef stjórnarráðsins. Ástandið er auðvitað um garð gengið vegna þess að vertíðin er yfirstaðin og því getur umboðsmaður lítið hlutast til um að rétta hlut Hvals,“ segir Heiðrún.
Hún bendir á að Umboðsmaður vísi á dómstóla varðandi eftirmálana.
„Það er alveg klárt í mínum huga að þegar að ráðherra vegur svo alvarlega að lífsviðurværi fólks og fyrirtækja nánast á einni nóttu, þá kemur ekki annað til greina en að ráðherra verði að sæta ábyrgð og að aðilar sæki þann rétt sem þeir hafi lögum samkvæmt.“
Spurð frekar út í ummæli sín um að ráðherra verði að sæta ábyrgð og hvort hún meini að Svandís ætti að segja af sér, lætur Heiðrún það liggja milli hluta.
„Það er eitthvað sem ráðherra verður að eiga við sína samvisku og pólitíkin verður að ráða fram úr. Það er ekki í mínum verkahring að segja til um það.“