Skoðun

Vaxandi raf­orku­sala á al­mennum markaði

Heimir Þórisson skrifar

Raforkuöryggi hefur verið í brennidepli að undanförnu. Nýjasta virkjun Landsvirkjunar, Búrfellsstöð II, var gangsett árið 2018 og útlit er fyrir að sú næsta, Hvammsvirkjun, verði ekki gangsett fyrr en 2028. Eftirspurn hefur þó aukist umtalsvert á síðustu árum og nú er svo komið að vinnslukerfi fyrirtækisins er fullnýtt.

Landsvirkjun selur ekki raforku beint til heimila og fyrirtækja, annarra en stórnotenda. Raforkan er seld til sölufyrirtækja sem selja hana svo áfram. Öllum sölufyrirtækjum bjóðast sömu kjör á hverjum tíma. Þegar við tölum um markaðshlutdeild Landsvirkjunar á almennum markaði er mikilvægt að átta sig á að hún stjórnast af eftirspurn sölufyrirtækja frekar en markaðssókn eða ákvörðunum Landsvirkjunar.

Nú þegar gengið hefur verið frá sölu raforku fyrir janúar 2024 fæst staðfest að sala Landsvirkjunar á almenna markaðinn, sem stjórnast af þessari eftirspurn, eykst um 25% á milli ára. Til samanburðar gera raforkuspár Landsnets og Orkustofnunar ráð fyrir um 1,5-2,5% vexti á almennum markaði milli 2023 og 2024. Þessi mikla aukning umfram spár kveikir grun um að raforku á almennum markaði sé nú beint til notenda utan hans.

Sala Landsvirkjunar á almennan markað hefur sveiflast mikið undanfarin ár. Þannig var 7% samdráttur í janúar milli áranna 2020 og 2021 þegar heimfaraldur reið yfir. Á sama tíma minnkaði þó heildarnotkun almenna markaðarins aðeins um 1,5% og því ljóst að önnur orkufyrirtæki beindu sinni framleiðslu í auknum mæli inn á almennan markað. Frá árinu 2021 hefur svo sala Landsvirkjunar aukist umfram vöxt markaðar á hverju ári.

Aukning í sölu Landsvirkjunar er langt umfram vöxt á almennum markaði.Landsvirkjun

Kerfi Landsvirkjunar er nú fullnýtt og ljóst að takmörk eru á því hversu miklar skuldbindingar fyrirtækið getur gengist undir til viðbótar á næstu árum. Ef sú aukning sem við sjáum nú raungerast í janúar heldur áfram kemur að því að fyrirtækið geti ekki annað allri eftirspurn og þyrfti í því tilfelli að selja þá orku sem til er til hæstbjóðanda, í samræmi við samkeppnislög. Þetta myndi þó ekki tryggja að næg raforka væri til staðar fyrir almennan markað og líkur væru á verðhækkunum til heimila og fyrirtækja.

Mikilvægt er að tryggja raforkuöryggi almennings áður en til slíkra aðstæðna kemur.

Höfundur er sérfræðingur hjá viðskiptaþjónustu Landsvirkjunar.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×