Ástþór greinir frá framboðinu á vefsíðu sinni, forsetakosningar.is. Þar segir hann að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn. Tæp þrjátíu ár séu liðin frá því hann bauð sig fyrst fram til forseta árið 1996 og á þeim tíma hafi margt breyst.
„Á þessu tímabili lýsti ég því hvernig styrjaldarástand myndi þróast sem gæti ógnað velsæld of framtíð okkar ef ekki yrði gripið í taumana með nýrri hugmyndafræði í alþjóða stjórnmálum. Því miður reyndist ég sannspár. Við erum nú komin í styrjöld við vinaþjóð okkar í Rússlandi. Í mið austurlöndum er allt á suðupunkti og margir telja að sú styrjöld muni breiða úr sér til nærliggjandi landa. Í raun er hætta á að þetta ástand þróist í heimsstyrjöld,“ segir í framboðstilkynningunni.
Boðar heimsfrið
Tilkynningin fjallar að miklu leyti um að stuðla að friði í heiminum en Ástþór hefur ítrekað kallað eftir heimsfrið og er stofnandi og stjórnandi samtakanna Friður 2000.
„Það væri mjög vanhugsað af Íslenskri þjóð að kjósa inn á Bessastaði annan forseta með það hlutverk að fara í „opinberar heimsóknir“ á milli húsa í heimabyggð sinni. Nú þurfa Íslendingar að Virkja Bessastaði og nýta embætti Forseta Íslands til að stuðla að friði á alþjóðavettvangi,“ segir í tilkynningunni.
Hélt það væri einhver betri
Ástþór kveðst áður fyrr hafa talið að hægt væri að finna annan mann betri í verkið en sig sjálfan. Nú sé hann hins vegar viss um sjálfan sig.
„Ég mun Virkja Bessastaði og gera embættið stærra og meira og um leið öfluga tekjulind fyrir Íslenska þjóð með því að laða til landsins alþjóðastofnanir friðar og mannréttinda,“ segir í tilkynningunni.
Ástþór er númer tvö í dag til þess að tilkynna framboð en rétt fyrir hádegi greindi varaþingmaðurinn Arnar Þór Jónsson að hann vildi einnig inn á Bessastaði. Þeir eru þá orðnir fjórir sem hafa greint frá framboði sínu, það eru Arnar, Ástþór, Axel Pétur Axelsson og Dóri DNA. Framboð Dóra er reyndar háð því að það byrji eldgos 6. janúar næstkomandi, ef marka má Twitter-síðu hans.
Að gefnu tilefni.
— Halldór Halldórsson (@doridna) January 2, 2024
Eftir að hafa ráðfært mig við mína nánustu hefur komið í ljós að þessi hugmynd mín, leggst ákaflega illa í fólk.
Ég hef því ákveðið eftirfarandi.
Muni gjósa aftur á þrettándanum (eins og ég finn á mér) - fer ég í framboð.
Annars ekki.