Margslungin mál komu að venju inn á borð lögreglu í gær og nótt og tengdust minnst tvö þeirra flugeldum. Í öðru tilvikinu var tilkynnt um fólk sem væri að henda flugeldum af svölum og sprengja þá inn á svölum. Þá barst tilkynning um ungmenni sem höfðu sprengt flugelda á bensínstöð en þau höfðu yfirgefið vettvang þegar lögregla kom á staðinn.
Handtekinn í kjölfar þvagláta
Einnig höfðu laganna verðir afskipti af einstaklingi sem kastaði af sér þvagi í miðborg Reykjavíkur. Var sá handtekinn en hann reyndi að kasta af sér þvagi á dyraverði skemmtistaðar og neitaði að segja til nafns eða gefa upplýsingar um hver hann væri, að sögn lögreglu. Var einstaklingurinn vistaður í fangaklefa þar til lögregla gat rætt betur við hann.
Tilkynnt var um vinnuslys á ónefndu hóteli þar sem um var að ræða minniháttar meiðsli og var einstaklingur fluttur á bráðamóttöku. Þá var annar einstaklingur handtekinn vegna gruns um líkamsárás í miðborg Reykjavíkur en látinn laus að lokinni upplýsingaöflun.
Einnig voru höfð afskipti af ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna.