Þær sundlaugar borgarinnar sem staðið hafa opnar til 22 á kvöldin verður þannig lokað klukkan 21 á laugardögum og sunnudögum. Eins og áður segir tekur breytingin gildi næsta vor, 1. apríl. Opnunartímar á virkum kvöldum, sem og föstudagskvöldum, verða óbreyttir.
Eiríkur Björn Björgvinsson sviðsstjóri menningar- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, sem sundlaugarnar heyra undir, segir í samtali við fréttastofu að opnunartíminn verði styttur samkvæmt niðurskurðarkröfu.
Opnunartími sundlauganna var talsvert skertur nú um hátíðarnar frá því sem verið hefur síðustu ár. Skerðingin er liður í hagræðingaraðgerðum sem kynntar voru í nóvember í fyrra.