Handbolti

Henti Guð­jóni Val út af topp tíu listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 2110  mörk í efstu deild í Þýskalandi á ferlinum.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 2110  mörk í efstu deild í Þýskalandi á ferlinum. Mynd/Daníel

Íslenska handboltagoðsögnin Guðjón Valur Sigurðsson er ekki lengur einn af tíu markahæstu leikmönnum í þýsku Bundesligunni frá upphafi.

Guðjón skoraði alls 2.110 mörk í 462 leikjum í deildinni fyrir lið TUSEM Essen, VfL Gummersbach, Rhein-Neckar Löwen og THW Kiel. Guðjón Valur hafði verið á topp tíu síðan hann yfirgaf þýsku deildina í síðasta sinn sumarið 2019.

Guðjón missti hins vegar sætið sitt í gær til Þjóðverjans Marcel Schiller. Schiller hafði jafnað við Guðjón í leiknum á undan en komst fram úr honum í gær.

Schiller, sem er enn bara 32 ára ára gamall, er nú leikmaður Frisch Auf Göppingen og hefur verið það undanfarin rúman áratug. Hann skoraði fjögur mörk í þriggja marka sigri Göppingen á Bergischer HC í gær.

Schiller er nú kominn með 2.114 mörk í 371 leik og situr einn í tíunda sæti listans.

Íslenski Daninn Hans Lindberg er markahæstur frá upphafi með 3.005 mörk en hann sló í vor markamet Suður-Kóreumannsins Kyung-Shin Yoon.

Guðjón Valur er efstur íslenskra leikmanna í ellefta sæti en næstur honum kemur Alexander Petersson í tuttugasta sætinu með 1.757 mörk. Ólafur Stefánsson er síðan í 62. sæti með 1.244 mörk. Bjarki Már Elísson er í 70. sæti með 1.198 mörk.

Guðjón Valur skoraði 4,6 mörk í leik, Ólafur var með 4,9 mörk í leik, Bjarki skoraði 4,6 mörk í leik og Alexander var með 3,4 mörk í leik.

Markahæstu íslensku leikmennirnir að meðaltali í leik eru Ómar Ingi Magnússon með 6,9 mörk í leik og Sigurður Valur Sveinsson með 5,8 mörk í leik. Viggó Kristjánsson er síðan með 4,9 mörk í leik eins og Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×