Margir ráku upp stór augu í dag þegar Kauphöll bárust tilkynningar frá VÍS og Kaldalóni um veðsetningu félags sem er nákomið stjórnarmanni í félögunum. Þar var á ferð Skel fjárfestingarfélag en forstjóri þess, Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, er stjórnarmaður í báðum félögum.
VÍS tilkynnti um veðsetningu á 156.956.533 hlutum í félaginu til tryggingar lánasamningum. Það er allur 8,2 prósent hlutur Skeljar í VÍS, sem er metinn á um 2,5 milljarða króna.
Kaldalón tilkynnti um veðsetningu 100.676.401 hlutar til tryggingar lánasamningum, til viðbótar við fyrri veðsetningar sem tilkynnt var um 23. september í fyrra. Það er samanlagt allur 15,4 prósent hlutur Skeljar í Kaldalóni, sem er um 2,8 milljarða króna virði.
Í samtali við Vísi segir Ásgeir Helgi um lögbundna tilkynningu um hefðbundna fjármögnun félagsins. Eftir gildistöku evrópureglugerðar um markaðssvik, sem ævinlega er kölluð MAR, sé skylt að tilkynna um veðsetningu hluta á sama hátt og um kaup og sölu hluta.
Skel noti skráðu bréfin sem veð gegn skuldbindingum félagsins við lánardrottna sína þar sem það sé hagkvæmast. Það sé gert á einu bretti einu sinni á ári og því komi tilkynningar nú um veðsetningu allra skráðra bréfa félagsins.