Skoðun

Skaða­minnkandi lyfja­með­ferð við ópíóíða­fíkn

Ásdís M. Finnbogadóttir skrifar

Hér á landi eru morfínlyf notuð sem vímuefni hjá sumu fólki með fíknsjúkdóm. Það er reyndar líka tilfellið í öðrum löndum. Neysla morfínlyfja til að komast í vímu er sams konar og á heróíni. Neysla þessara ópíóíða er hættuleg, því notaðir eru háir skammtar og efnin gjarnan reykt eða þeim sprautað í æð. Afleiðingar eru ofskammtar, sýkingar og dauði.

Til er lífsbjargandi lyfjameðferð við alvarlegri ópíóíðafíkn sem undirrituð sinnir hjá SÁÁ ásamt fleiri hjúkrunarfræðingum. Lyfin sem eru notuð, búprenorfín og metadón, eru gagnreynd, ráðlögð lyf sem sannanlega draga úr alvarlegum aukaverkunum, skaða og dauða.

Þessi lyfjameðferð er veitt sem hluti af meðferð til bata frá neyslu sem er langtímaverkefni, en einnig sem skaðaminnkun fyrir fólk sem er enn í virkri vímuefnaneyslu.

Í dag eru um 300 einstaklingar í lyfjameðferð vegna ópíóíðafíknar hjá SÁÁ, um 40 þeirra eru jafnframt í mikilli vímuefnaneyslu og miklu fleiri í einhverri samhliða neyslu á tímabilum. Langflestir óska sér að komast út úr neyslu en það getur verið langhlaup sem tekur tíma og meðferð með fagfólki. Á meðan geta þessi ráðlögðu lyf bjargað lífi og minnkað skaða.

Margir skjólstæðinga okkar eiga erfitt með að standast þá freistingu að geta fengið ókeypis „vímuefni“ frá lækni í skömmtun. Allnokkur umræða hefur verið um ávísanir slíkra morfínlyfja.

Lyfjaávísanir á morfínlyfjum til að sprauta í æð eða reykja er skaðleg. Hún eykur skaða en er ekki skaðaminnkandi.

SÁÁ sinnir stórum hópi fólks með alvarlega ópíóíðafikn alla daga, fyrst og fremst í göngudeild, þar sem við afhendum lyf (búprenorfín og metadón) eða gefum mánaðar forðasprautur undir húð.

Lyfjameðferðin sem við veitum er ráðlögð og gagnreynd. Hún er skaðaminnkandi. SÁÁ hefur til þessa getað svarað eftirspurn og aukið hana ár hvert, en þessa meðferð þarf að tryggja af yfirvöldum.

Sá hópur sem stendur félagslega verst þarf skaðaminnkun eins og þessa gagnreyndu lyfjameðferð, í nærumhverfi. Samstarf félagsþjónustu, SÁÁ, Landspítala og fleiri myndi leysa það ef vilji er til faglegra umbóta.

Skaðaminnkun er svo sannarlega hluti af meðferð við fíknsjúkdómi sem við sinnum alla daga.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur hjá SÁÁ.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×