Handbolti

Ómar fór á kostum er Magdeburg komst á toppinn með risasigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi var kominn með níu mörk í fyrri hálfleik.
Ómar Ingi var kominn með níu mörk í fyrri hálfleik. Mario Hommes/Getty Images

Ómar Ingi Magnússon átti sannkallaðan stórleik er Magdeburg endurheimti toppsæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með risasigri gegn Hamburg á útivelli í kvöld, 28-43.

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur tóku gestirnir í Magdeburg öll völd á vellinum og gerðu í raun út um leikinn í fyrri hálfleik. Magdeburg leiddi með tveimur mörkum í stöðunni 6-8 snemma í leiknum, en liðið skoraði hvorki fleiri né færri en 19 mörk gegn aðeins þremur mörkum heimamanna það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og fór því með 18 marka forskot inn í hléið í stöðunni 9-27.

Gestirnir gátu leyft sér að slaka aðeins á í síðari hálfleik og hægt og rólega dró saman með liðunum. Brekkan var þó löngu orðin of brött fyrir haimemenn og Magdeburg vann að lokum afar öruggan 15 marka sigur, 28-43.

Ómar Ingi var markahæsti maður vallarins með 11 mörk fyrir Magdeburg, en þar af skoraði hann níu í fyrri hálfleik. Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk fyrir liðið og Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem er að ná vopnum sínum í tæka tíð fyrir Evrópumótið sem hefst í næsta mánuði, skoraði þrjú.

Með sigrinum endurheimti Magdeburg toppsæti þýsku deildarinnar, en liðið er nú með 30 stig eftir 17 leiki, jafn mörg og Füchse Berlin sem situr í öðru sæti. Hamburg situr hins vegar í 12. sæti með 13 stig.

Þá skoraði Teitur Örn Einarsson sjö mörk fyrir Flensburg er liðið vann fimm marka sigur gegn Lemgo fyrr í dag, 34-29, og Oddur Grétarsson skoraði fimm mörk fyrir HBW Balingen-Weilstetten er liðið gerði 22-22 jafntefli gegn Erlangen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×