Í samtali við fréttamann segir Helga að hraunið sé aðeins kaldara en úr hinum eldgosunum á Reykjanesi undanfarin ár. Basaltið sé svipað en frumstæðustu steindirnar sem sáust í hinum gosunum virðast ekki vera í þessari kviku.
Það gefi til kynna að eldstöðin sé þróaðri en hinar. Það verði þó að koma betur í ljós eftir efnagreiningu.
Það þýðir að kvikan hafi mögulega staldrað aðeins við í skorpunni, eða kvikuganginum, og sé ekki að koma beint til yfirborðsins úr iðrum jarðar.
Sjá einnig: Eldfjallafræðingar freista þess að ná sýnum úr eldgosinu
Helga segir stóra hrauntjörn hafa myndast austan við gígaröðina. Það stefni til austurs og norðaustur.
„Það er búið að slökkva í mörgum strókum en það eru margir að gefa í núna, þannig að þetta er sitt á hvað. Það er spurning hvernig þetta þróast,“ segir Helga. Hún segir þessa gígaröð við hlið Sundgígahnjúka, austan við þá.
Helst séu þrjú svæði á sprungunni sem opnaðist í gærkvöldi enn virk. Ekki hafi orðið mikil breyting frá því hádeginu, að öðru leyti en að svo virðist sem meira flæði sé úr strókunum.
Gasmælarnir fóru ekki í gang á meðan vísindamennirnir voru við störf en vindáttin er mjög hagstæð í dag.