Fyrir leikinn var lið Balingen-Weilstetten í botnsæti þýsku úrvalsdeildarinnar og höfðu aðeins náð í tvo sigra í fyrstu sextán umferðunum. Hamburg var í 13. sæti með tólf stig.
Liðin skiptus á forystunni í fyrri hálfleik en Hamburg leiddi 14-12 í hálfleik. Svipað var uppi á teningunum í síðari hálfleik þar til Balingen-Weilstetten náði skyndilega fjögurra marka forskoti í stöðunni 26-22 þegar tæpar sjö mínútur voru eftir.
Heimamenn játuðu sig hins vegar ekki sigraða. Lið Hamburg breytti stöðunni úr 27-23 Balingen-Weilstetten í vil yfir í 28-27 sér í vil. Markið sem kom Hamburg í forystu var skorað þegar fimm sekúndur voru eftir en það var þó nægur tími fyrir lið Balingen-Weilstetten að næla í vítakast.
Oddur Grétarsson fékk það hlutverk að jafna úr vítakastinu. Það leysti hann vel og tryggði gestunum eitt stig úr leiknum. Oddur skoraði þrjú mörk fyrir Balingen-Weilstetten sem þrátt fyrir jafnteflið er enn í neðsta sæti deildarinnar. Daníel Þór Ingason var einnig í liði Balingen í dag en komst ekki á blað í markaskorun.