Málið er stærsta fíkniefnamál Íslandssögunnar. Hundrað kíló af kókaíni var flutt inn í timburdrumbum frá Brasilíu en voru gerð upptæk í Rotterdam og skipt út fyrir gerviefni. Karlmennirnir voru handteknir hér á landi í ágúst í fyrra.
Páll Jónsson, timburinnflytjandi á sjötugsaldri, hlaut níu ára fangelsisdóm. Birgir Halldórsson, 27 ára, hlaut sex og hálfs árs fangelsi, Jóhannes Páll Durr, 28 ára, hlaut fimm ára fangelsisdóm og hinn þrítugi Daði Björnsson hlaut fimm ára fangelsisdóm. Gæsluvarðhald sem mennirnir hafa setið í vegna málsins verður dregið frá refsingunni.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur hafði Páll fengið tíu ára dóm, Birgir átta ára dóm, Jóhannes fékk sex ára dóm og Daði hlaut sex og hálfs árs fangelsisdóm.
Skipulagt í þaula
Mennirnir höfðu haldið því fram að þeir höfðu ekki verið meðvitaðir um hversu mikið kókaín þeir hafi verið að flytja til landsins. Landsréttur mat það ótrúverðugt í ljósi umfangs flutningsins og kostnaðarins við hann.
„Í öllu falli hefðu þeir látið sér það í léttu rúmi liggja og samþykkt að taka þátt í innflutningnum,“ segir í dómnum.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa sönnur á tilvist skipulagðra brotasamtaka í málinu. Þrátt fyrir það var litið til þess við ákvörðun refsingarinnar að mennirnir hafi unnið verkið saman og þeir skipt verkum á milli sín. Brotið hafi verið skipulagt í þaula og ásetningur þeirra einbeittur.
Mönnunum er gert að greiða tvo þriðju málskostnaðar málsins. Allur áfrýjunarkostnaður málsins mun greiðast úr ríkissjóði.
Ákærum um meint peningaþvætti mannanna var vísað frá dómi.
Hefði sætt sig við fjögur til fimm ár
Páll Jónsson steig fram í viðtali á Vísi í sumar og sagði sína hlið. Sagði hann dvölina í fangelsinu á Hólmsheiði óbærilega og að hann væri við það að gefast upp. Þá gagnrýndi hann rannsókn lögreglunnar á málinu harðlega og sagði spillingu ríkja innan fíkniefnadeildarinnar.
Páll sagðist sjá mikið eftir sínum þætti en stóð fastur á því að hann hefði talið að um sex kíló af kókaíni væri að ræða en ekki hundrað. Hefði hann sætt sig við fjögur til fimm ára fangelsisvist.
Fréttin hefur verið uppfærð.