Það var jafnt á nærri öllum tölum framan af leik og staðan var jöfn 16-16 í hálfleik. Í síðari hálfleik var það sama upp á teningnum en í blálokin var það HK sem steig skrefið og landaði sigrinum.
Sigurjón Guðmundsson varði 18 skot í marki HK og munaði um minna. Sigurður Jeffersson skoraði 7 mörk í sigurliðinu og var markahæstur. Hjá Stjörnunni skoraði Pétur Árni Hauksson 8 mörk og Adam Thorstensen varði 10 skot.
Á Selfossi voru Haukar í heimsókn og þar var líka jafnt á öllum tölum framan af en svo náðu gestirnir góðum kafla og voru um tíma fimm mörkum yfir, staðan 12-17 í hálfleik.
Selfyssingar mættu grimmir inn í síðari hálfleikinn, söxuðu forystuna fljótt niður og staðan orðin jöfn 23-23 um miðbik síðari hálfleiks. Það voru síðan heimamenn sem reyndust sterkari á lokasprettinum.
Hannes Höskuldsson var markahæstur í liði heimamanna með 8 mörk á meðan Einar Sverrisson skoraði 6. Í markinu vörðu Alexander Hrafnkelsson og Vilius Rasimas samtals 16 skot. Í liði Hauka skoraði Þráinn Orri Jónsson 7 mörk og Össur Haraldsson gerði 6 mörk líkt og Guðmundur Bragi Ástþórsson.
Haukar eru í 6. sæti með 10 stig, HK í 7. sæti með 7 stig, Stjarnan í 11. sæti með 5 stig og Selfoss áfram á botninum með 4 stig.