Mawasi er um það bil fjórtán ferkílómetrar að stærð og stofnanir segja meðal annars að það sé of áhættusamt að safna svo miklum fjölda saman á svo litlu svæði. Stofnanirnar ítreka áköll sín eftir vopnahléi og neyðaraðstoð á svæðinu.
Ísraelsher dreifði einblöðungum yfir suðurhluta Gasa í gær þar sem fólk var hvatt til að halda til Mawasi, í „öruggt skjól“. Flestir íbúar Gasa halda nú til í suðurhlutanum, eftir að einblöðungum var dreift í norðurhlutanum og fólk hvatt til að halda suður vegna herðnaðaraðgerða norðanmegin.
Ef aukinn þungi færist í árásir Ísraelsmanna á suðurhlutann er óvíst hvað á að verða um fólk þar sem Egyptar hafa neitað að opna landamærin fyrir Palestínumenn á flótta. Utanríkisráðherra Egyptalands sagði raunar í gær að leggja þyrfti áherslu á að opna heilbrigðismiðstöðvar innan Gasa til að aðstoða sjúka og særða.
Á sama tíma hefur Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna varað við því að hungursneyð standi fyrir dyrum á Gasa, þar sem nærri allir íbúar á svæðinu séu án mataraðstoðar. Vatn og matur sé af skornum skammti og íbúar standi frammi fyrir því að svelta.
Ísraelsher réðist inn í Jenin-flóttamannabúðirnar á Vesturbakkanum í nótt og þá eru þrír Palestínumenn sagðir hafa látist í loftárásum á búðirnar í gær.