Innlent

Konum með há­skóla­menntun fjölgað mun meira en körlum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kvennaverkfall 2023.
Kvennaverkfall 2023. Vísir/Vilhelm

Meira en helmingur kvenna á aldrinum 25 til 64 ára var með háskólamenntun árið 2022 en 33 prósent karla. Konum með háskólamenntun hefur fjölgað um 25 prósent frá 2003 en körlum um níu prósent.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Hagstofu Íslands.

Háskólamenntuðum landsmönnum á aldrinum 25 til 64 ára fjölgaði um rúm 16 prósent frá 2003 til 2022 en þá höfðu tæp 43 prósent aldurshópsins lokið háskólamenntun, samtals 84.700 einstaklingar.

„Á sama tíma fækkaði þeim sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun um rúmlega 13 prósentustig og voru þeir um 43.200 árið 2022, tæplega 22% íbúa á aldrinum 25–64 ára. Hægari breytingar voru á fjölda þeirra sem mest höfðu lokið menntun á framhaldsskóla- og viðbótarstigi en fjöldinn hefur verið á bilinu 35–39% íbúa á aldrinum 25–64 ára frá árinu 2003,“ segir á vef Hagstofunnar.

Töluverður munur er á menntunarstigi eftir búsetu en rúmlega helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu var með menntun á háskólastigi árið 2022 en tæp 30 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Tæplega 32 prósent íbúa á landsbyggðinni á aldrinum 25 til 64 ára höfðu aðeins lokið grunnmenntun en á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið sextán prósent.

„Atvinnuþátttaka í aldurshópnum 25–64 ára var mest á meðal háskólamenntaðra einstaklinga, tæplega 94% árið 2022. Á meðal þeirra sem höfðu menntun á viðbótarstigi var atvinnuþátttaka tæp 93% og tæp 90% á meðal þeirra sem höfð mest lokið starfsnámi á framhaldsskólastigi. Minnst var atvinnuþátttaka á meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, rúmlega 78%.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×