Konan býr í fjölbýlishúsi í Silfrutjörn 6, húsinu á móti Silfrutjörn 2 þar sem karlmaður var skotinn í morgun. Hún segir manninn sinn hafa vaknað við læti undir morgun, og einhver hafi hrópað á hjálp. Því næst heyrði hann þrjá skothvelli.
„Við kíktum út og sáum einhverja stráka úti. Ég ætlaði að fara aftur að sofa, hélt þetta væru bara einhver fíflalæti en stuttu seinna var allt í blikkandi ljósum,“ segir konan sem vill ekki láta nafns síns getins vegna alvarleika málsins.
Maðurinn hennar hafi því næst ætlað að kíkja út en sá þá að rúða í bakdyrahurðinni var mölbrotin. Við nánari skoðun sá hann byssukúlu og áttaði sig á því að skotið hafði verið á heimili þeirra.
Börnin vöknuðu með lögreglumenn inni í íbúðinni
„Þetta lenti í vegg hjá barnaherbergi. Ég er bara fegin að enginn hafi farið á klósettið, annars hefði þetta geta farið í einhvern,“ segir konan.
Parið á fjögur börn, tvö þeirra eru með lögheimili hjá þeim og voru heima þegar atvikið átti sér stað, stúlkur á aldrinum átta og fjögurra ára. Þeim var eðlilega brugðið þegar þær vöknuðu og lögreglumenn voru inni á heimilinu.
Sjálf segist hún enn vera að melta það sem gerst hafi og líklega sé mesta áfallið ekki komið fram. Hana hafi varla langað að fara út í morgun til að skutla stelpunum í skólann.
Aðspurð segist hún ekki hafa hugmynd um hverjir voru að verki. Hún hafi einu sinni eða tvisvar orðið vör við lögregluna í blokkinni á móti.