Þjóðarflokkurinn fór með sigur í þingkosningum á dögunum og hyggst meðal annars leggja fram frumvarp um bann gegn gengjamerkjum sem saumuð eru á jakka og aðrar flíkur.
„Ef gengin halda að þau geti komist framhjá banninu gegn merkjunum með því að láta flúra hakakross eða meiðandi tákn á andlit sín þá munum við grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir það,“ sagði Mitchell.
Talið er að um 33 glæpagengi sé að finna á Nýja-Sjálandi með um 8.900 liðsmenn. Mongrel Mob er það stærsta, skipað maóríum, og ekki óalgengt að sjá liðsmenn þess úti á götu í borgum og bæjum.
Margir þeirra hafa látið flúra merki gengisins, bolabít, á andlitið.
Í viðtalinu vísaði Mitchell til banns gegn gengjaflúrum sem komið var á í Vestur-Ástralíu árið 2021. Bannið kveður meðal annars á um að öll flúr sem menn voru með áður en banninu var komið á verði að hylja með farða.
Hugmyndin virðist öðrum þræði að smætta liðsmenn gengjanna en Mark Lauchs, prófessor við Queensland University of Technology og sérfræðingur í gengjum, hefur líkt banninu við fyrirætlanir um að láta fanga í Queensland klæðast bleiku.
Lauchs segir þeim hugmyndum, sem voru aldrei teknar í gagnið, hafa verið ætlað að gera lítið úr föngunum frekar en að tryggja almannahagsmuni, sem sé þó tilgangur allrar löggjafar gegn glæpagengjum.
Þá hefur einnig verið bent á að það gæti skapað lögreglu töluverðan vanda að framfylgja fyrirhuguðum reglum Þjóðarflokksins þar sem ættbálkaflúr séu algeng, ekki síst meðal maóría.