„Frá því að við tilkynntum höfum við fundið mjög hratt og vel að langflest fyrirtæki þekkja þennan sögulega dag og hver markmið hans eru, að sýna mikilvægi kvenna til samfélagsins í launuðum störfum og ólaunuðum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Heilt yfir hafi vinnustaðir tekið verkfallinu vel, tossalistinn sé þó ekki tómur.
„Það standa núna eftir 32 vinnustaðir á listanum. Á honum eru aðallega fyrirtæki á einkamarkaði og af öllum stærðum og gerðum er síðan er eitt sveitarfélag,“ segir Sonja en tekur fram að fækkað hafi á listanum.
„Mörg fyrirtæki voru fyrri til að tilkynna að þau styddu þetta og að það yrði ekki launaskerðing. Síðan sendum við í kjölfarið hvatningu og reyndum að ná til allra atvinnurekenda þar sem við vorum að hvetja þau til að hvetja konur og kvár til þátttöku og þau voru þá þannig að taka afstöðu áður en kom til þessa samtals inni á vinnustaðnum og lýsa því yfir hvernig færi með launagreiðslurnar,“ segir Sonja.
„Það er mikill meirihluti sem hafa gert það. Heilt yfir erum við ótrúlega ánægð að það eru konur, kvár og atvinnurekendur að svara kallinu með mjög skýrum hætti.“
Dæmi séu um að vinnustaðir leyfi enga þátttöku í dagskrá morgundagsins og einhverjum hafi verið hótaðar starfsmissir fyrir þátttöku.
„Það eru dæmi um það og meirihlutinn sem stendur eftir á þessum lista þá eru það þannig tilvik. Þá er gert ráð fyrir að konur og kvár geti ekki tekið þátt að neinu leyti í dagskránni.“