Eins og Vísir hefur greint frá er tvísýnt um hvort að Lög og réttlæti, stjórnarflokkur Póllands, nái hreinum meirihluta í kosningunum. Flokkurinn hefur verið við völd undanfarin tvö kjörtímabil, frá því árið 2015. Búist er við því að fimm flokkar muni ná inn á þing að þessu sinni.
29 milljónir pólskra ríkisborgara hafa kjörgengi. 460 þingmenn eru í neðri deild pólska þingsins og hundrað í efri deild. 31 þúsund kjörstaðir verða opnir í dag og verða útgönguspár gefnar út klukkan 21:00 í kvöld að pólskum tíma, eða klukkan 19:00 að íslenskum.
Samhliða kosningunum hafa fjögur mál verið lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu af stjórnarflokknum Lög og réttlæti. Pólskir kjósendur verða spurðir um afstöðu sína til innflytjenda, um skoðanir sínar á vegg við landamær landsins að Hvíta-Rússlandi, hækkun eftirlaunaaldurs og sölu á ríkiseignum.
Samsteypustjórn í kortunum
Flokkarnir þrír sem væru skýrasti valkosturinn við Lög og réttlæti; Borgaravettvangur Donalds Tusk, fyrrverandi forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Þriðja leið miðjuflokkanna og Sósíaldemókratar, mælast saman með meira fylgi en miðað við dreifingu atkvæða stefnir í að þeir næðu ekki meirihluta á þingi.
Fastlega er gert ráð fyrir að flokkar muni þurfa að mynda samsteypustjórn að kosningunum loknum með smærri flokkum, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um kosningarnar. Lög og réttlæti mælist með á milli 31 til 36 prósenta fylgi en Borgaravettvangur hefur mælst með nokkrum prósentustigum minna.
Donald Tusk, formaður Borgaravettvangsins, vill mynda ríkisstjórn með Þriðju leið miðjuflokkanna og Sósíaldemókrötum á meðan talið er að það stefni í að Lög og réttlæti muni þurfa að reiða sig á stuðning flokka sem eru yst á hægri skala stjórnmálanna í Póllandi.