Skoðun

Nætursilfrið

Ingólfur Sverrisson skrifar

Á tímum þegar flestir virðast sammála um að mikla nauðsyn beri til að efla almenna og vandaða umræðu í þjóðfélaginu tekur RÚV ákvörðun um að rífa Silfrið upp með rótum og setja á tíma þegar stór hluti þjóðarinnar er genginn til náða. Engum á þeim bæ virðist hafa dottið í hug að ræða þessa tilfærslu við almenning og kanna undirtektir við svo róttæka breytingu. Nei, bara gefin út tilkynning í kanselístíl um að „vér höfum ákveðið “ og svo framvegis.

Ekki er annað vitað en tíminn skömmu fyrir hádegi á sunnudögum hafi reynst mörgum vel til að íhuga og hlusta á vandaðan umræðuþátt. Hvíldardagur og fólk almennt á heimilum sínum í ró og næði. Stjórnendur útvarps allra landsmanna færðu engin rök fyrir því að færa svona mikilvægan umræðuþátt frá þessum ágæta tíma. Tóku þess í stað einhliða ákvörðum um að færa hann fram á ellefta tímann á mánudögum þegar eldra fólk og flestir sem vinna erfiðisvinnu hafa tekið á sig náðir. Þeir áhorfendur sem svo tóra þetta langt fram eftir fara fyrr en varir að draga ýsur enda er þetta tími sem flestar sjónvarpsstöðvar nýta til sýna glæpaþætti og hasar sem getur frekar haldið fólki vakandi.

Sannleikurinn er sá að vandaðir umræðuþættir erlendra sjónvarpsstöðva eru lang oftast á góðum tíma fyrir allt venjulegt fólk. Ekki er þeim sem þetta ritað kunnugt um að nokkrum þeirra detti sú ósvinna í hug að hafa slíka þætti seint á kvöldum. Að öllu þessu virtu er hér með skorað á stjórnendur RÚV að færa þáttinn snarlega aftur á sinn stað fyrir hádegi á sunnudögum sem nú er nýttur til að endurtaka gamalt efni. Ef ekki er hægt að verða við þessari frómu ósk er lagt til að nafni þáttarins verði breytt í: Nætursilfrið.

Höfundur er eftirlaunaþegi.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×