Lífið

Notaður í aug­lýsingu með gervi­greind án leyfis

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tom Hanks hefur áður viðrað áhyggjur sínar af þróuninni sem fylgir gervigreindartækninni.
Tom Hanks hefur áður viðrað áhyggjur sínar af þróuninni sem fylgir gervigreindartækninni. EPA-EFE/GUILLAUME HORCAJUELO

Tom Hanks hefur varað að­dá­endur sína við því að í um­ferð sé aug­lýsing á vegum trygginga­fyrir­tækis þar sem gervi­greind er nýtt til að nota leikarann í aug­lýsingunni. Þetta er án hans að­komu og sam­þykkis.

Leikarinn birtir færslu á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram vegna málsins. „Varist! Það er mynd­band í dreifingu þar sem seldar eru tryggingar vegna tann­lækna­þjónustu og gervi­greindar­út­gáfa af mér nýtt í mynd­bandið. Ég hef ekkert með þetta að gera,“ skrifar leikarinn.

Óskars­verð­launa­hafinn hefur áður lýst yfir á­hyggjum sínum vegna mögu­leika gervi­greindar í kvik­myndum og sjón­varpi. Tæknin hefur áður verið nýtt meðal annars í Star Wars myndunum þar sem leikarar hafa ýmist verið endur­lífgaðir, eða þeir yngdir upp.

Dæmi um þetta má finna í nýjustu Indiana Jones myndinni þar sem Har­ri­son Ford er yngdur upp sem forn­leifa­fræðingurinn í hluta af myndinni. Þá hefur tæknin verið nýtt til að blása lífi í per­sónur eftir að leikararnir sem léku þær upp­runa­lega eru látnir, líkt og í Star Wars myndunum.

„Við vissum að þetta myndi gerast. Við sáum að það yrði hægt að taka saman tölur inn í tölvu og breyta þeim í and­lit og í per­sónu,“ sagði Tom Hanks í hlað­varps­þætti Adam Buxton um málið í apríl síðast­liðnum.

Þar sagði hann að leikarar hefðu miklar á­hyggjur af stöðu mála en gervi­greind hefur verið eitt af þrætu­eplunum í verk­falls­að­gerðum leikara í Hollywood sem staðið hefur yfir undan­farna mánuði. Leikarar hafa á­hyggjur af því að fyrir­tækin geti grætt á á­sýnd sinni og per­sónu án allrar að­komu sjálfra leikaranna.

„Það eiga sér stað sam­ræður í öllum fé­lögum, öllum um­boðs­skrif­stofum og lög­fræði­stofum um að koma upp laga­ramma utan um and­lit okkar og rödd, svo að þetta verði okkar eign,“ sagði leikarinn.

„Ein­mitt núna gæti ég, ef ég vildi, lagt til að gerðar yrði kvik­mynda­sería með sjö myndum þar sem ég yrði í aðal­hlut­verki þar sem ég er 32 ára gamall, núna og til ei­lífðar. Hver sem er getur endur­skapað sjálfan sig með gervi­greind,“ sagði leikarinn í hlað­varps­þættinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.