Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúls Gallup. Þar kemur fram að rúmlega þrír af hverjum tíu sem tóku afstöðu til könnunarinnar hafi stutt aðgerðirnar. Fjórtán prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu.
Fólk undir fertugu studdi aðgerðirnar helst en annars var fólk ólíklegra til að styðja þær eftir því sem það er eldra. Íbúar höfuðborgarsvæðisins studdu aðgerðirnar frekar en íbúar landsbyggðirnar.
Fólk með meiri menntun var líklegra til að styðja aðgerðirnar en fólk með minni menntun. Þau sem kysu Pírata voru líklegust til að styðja aðgerðirnar en þau sem kysu Miðflokkinn ólíklegust.

Mótmælendurnir Anahita Babei og Elissa Bijou voru upp í mastri Hvals 8 og Hvals 9 í 33 klukkustundir áður en þær komu niður. Hvalur hf. hefur kært þær til lögreglu fyrir mótmæli sín. Í framhaldinu lögðu Hvalur 8 og Hvalur 9 á miðin.
Matvælastofnun stöðvaði í liðinni viku veiðar Hvals 8 tímabundið vegna alvarlegra brota á velferð dýra. Við eftirlit MAST hafi komið í ljós að fyrsta skot Hvals 8 þann 7. september hafi hitt dýr „utan tilgreinds marksvæðis“ með þeim afleiðingum að dýrið hafi ekki drepist strax. Var dýrið ekki skotið aftur fyrr en 29 mínútum síðar.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, segir orsökina liggja í bilun á spili hvalveiðiskipsins. Skutull hafi hæft langreyðina skammt ofan við skilgreint marksvæði, við það hafi dýrið særst og farið á kaf. Þegar áhöfn hafi farið að hífa inn línu sem fest var við skutulinn hafi krókur losnað og slegist utan í spilið, með þeim afleiðingum að það festist.
Þá hafi hvorki verið hægt að hífa né slaka og dýrið því synt utan skotfæris á meðan áhöfn reyndi að gera við spilið með því að skera hlíf utan af því með slípirokk.
Þá segir Kristján að eftirlitsmaður á vegum MAST um borð í skipinu hafi tekið atburðarásina upp á farsíma sinn.
Sá hafi ýmist þysjað inn eða út þannig að svo virtist að hvalurinn væri af og til innan skotfæris. Svo hafi alls ekki verið þar sem línan hafi verið allt of löng og ómögulegt að draga hana inn eða sigla nær dýrinu.
Þessa atburðarás segir Kristján starfsmönnum MAST ómögulegt að skilja. Hefði verið siglt að hvalnum hefði línan mögulega getað endað í skrúfu skipsins og hvalurinn þannig sloppið særður. Það væri varla vilji Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.