Ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, betur þekktur sem RAX, tók myndir af Hvannadalshnjúk úr lofti í síðasta mánuði. Á þeim sést mikill berghamar á austurhlið hnjúksins og snjóþekjan á toppi hnjúksins. Þegar myndirnar eru bornar saman við aðrar sem RAX tók af sama stað í ágúst árið 2016 sést hvernig snjórinn og ísinn á þessum hæsta tindi Íslands hefur minnkað nokkuð.
Oddur Sigurðsson, jöklafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir breytingarnar á toppi jökulsins ekki sérlega miklar og að þær séu í samræmi við það sem vænta megi í ljósi hlýnunar loftslags á jörðinni.

Honum sýnist þó gjallgígur koma í ljós undan snjónum þegar hann ber saman myndirnar sem voru teknar með sjö ára millibili. Gjall úr honum virðist ennfremur hafa dreifst yfir fönnina næst honum.
„Ég held að það sé gjallgígur sem hefur verið þakinn snjó lengst af. Núna þegar hefur tekið af honum snjóinn meira en var fyrir sjö árum þá hafi farið að skafa gjallið úr þessum gíg og myndast svört rönd upp á jökulinn,“ segir Oddur í samtali við Vísi.
Gígurinn hefur eflaust verið þar frá örófi alda, eflaust frá því löngu fyrir landnám, að mati Odds.
„Hann gæti hafa myndast í gosinu 1362 en það er ekkert sem bendir sérstaklega til að hann hafi myndast þá, en ekki eftir það,“ segir hann en leggur áherslu á að það séu aðeins ágiskanir.
Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir sem RAX tók af Hvannadalshnjúki í flugferð sinni á dögunum.




