Metsektin sem Samkeppniseftirlitið lagði á Samskip á fimmtudag hljóðar upp á 4,2 milljarða króna. Sú hæsta fyrir það var lögð á Eimskip er félagið gerði sátt í sama máli og Samskip er sektað fyrir. Keyrðu félögin tvö upp gjöld á viðskiptavini sína með ólögmætu samráði árin 2008 til 2013.
Fyrir utan sektir Eimskips og Samskipa er aðeins ein sekt í sögu eftirlitsins sem nær yfir milljarð króna eftir verðlagsleiðréttingu. Er það þegar Olís var sektað árið 2004 vegna verðsamráðs olíufélaganna á Íslandi. Lægsta sektin á topp tíu listanum hljóðar upp á tæplega sex hundruð milljónir króna.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir það hafa verið horft til ýmissa þátta við ákvörðun sektarupphæðarinnar. Meðal annars til þess hve flutningamarkaður skiptir miklu máli á eyju sem Íslandi.
„Það er þannig að stjórnvaldssektir gagnvart fyrirtækjum í samkeppnismálum hafa þann tilgang að skapa varnaráhrif. Þeim er ætlað að koma skilaboðum í atvinnulífið um það að brot af þessu tagi verði ekki liðin. Sektirnar endurspegla það líka að brot af þessu tagi eru mjög alvarleg. Þau geta valdið miklu tjóni fyrir samfélög, neytendur og atvinnulífið í heild sinni,“ segir Páll.
Páll á von á að fjárhæð sekta í málum sem þessu muni hækka á næstu árum líkt og er að gerast í öðrum Evrópuríkjum.
„Þetta er einfaldlega sekt sem Samkeppniseftirlitið rökstyður í ákvörðuninni og er sú sekt sem eftirlitið telur við hæfi. En eins og er líka rakið, þá eru sektir að hækka í Evrópu, innan EES. Það er verið að huga að setningu nýrra reglna um ákvarðanir á sektum. Og það er líklegt að þær muni leiða til þess að sektir í málum af þessu tagi verði enn hærri en hingað til hefur verið,“ segir Páll.
Rannsókn málsins tók tíu ár og segir Páll margt hafa valdið því, meðal annars röng upplýsingagjöf fyrirtækjanna tveggja.
„Þetta mál fór sautján sinnum fyrir áfrýjunarnefnd og dómstóla. Það hefur áhrif á málsmeðferðina að það er búið að reyna á mjög mörk atriði undir rekstri málsins,“ segir Páll.
Samskip hefur nú fjórar vikur til þess að kæra sektina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.