Greint var frá því í hádegisfréttum okkar í gær að ADHD lyfið Elvanse hafi verið ófáanlegt í rúman mánuð hér á landi. Dæmi væru um að fólk reyni að útvega sér lyfið á svörtum markaði. Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, segir skortinn ekki bundinn við Ísland.
„Að fá þetta á svörtum markaði er ekkert auðveldara en að fá það í apóteki ef lyfið fæst ekki. Þetta er ekki sér íslenskt vandamál. Þetta er að gerast í Evrópu og löngu byrjað að gerast í Ameríku. Ekki bara þetta lyf heldur lyf sem byggja á svipuðu virku efni,“ segir Vilhjálmur.
Fyrst hafi borið á skortinum fyrir um þremur mánuðum og að stór hluti þeirra sem séu á lyfinu Elvanse hafi prófað önnur lyf sem hafi ekki hentað. Ekki sé hlaupið að því að skipta um lyf.
„Það fer allt úr skorðum. Það skiptir miklu máli fyrir manneskju með ADHD að halda rútínu, sofa reglulega, ná hvíld og bara það að taka ekki inn lyf setur allt annað úr skorðum og það er erfitt fyrir marga og jafnvel mjög slæmt,“ segir Vilhjálmur jafnframt.
Fjölmargir séu nú án lyfja og vandamálið sé stórt. Hins vegar þýði lítið að agnúast út í Lyfjastofnun á Íslandi þar sem skorturinn sé á heimsvísu. Forstjóri Lyfjastofnunar brýndi fyrir fólki í gær að vera ekki að nota annara manna lyf og að það ætti annað hvort að taka sér lyfjafrí eða tala við sinn lækni.
Undir það tekur Vilhjálmur. „Þú átt aldrei að nota annarra manna lyf það er ekkert öðruvísi en að finna lyf á svörtum markaði,“ segir hann og bætir við að fólk geti ekki gengið úr skugga um að það sé að fá rétt lyf og magn á götunni.