Greint var frá málinu í lok júní. Kom þá fram að hús Jakubs hafi verið metið á 57 milljónir en selt á þrjár milljónir á nauðungaruppboði vegna vanskila á húsnæðisgjöldum. Jakub sagðist þá ekki hafa vitað að hann stæði í skuld vegna þeirra gjalda. Svo fór að útburðinum var frestað um rúman mánuð en Jakub og fjölskylda fluttu í félagslegt húsnæði á vegum sveitarfélagsins í byrjun þessa mánaðar.
Ákvörðun um málshöfðun var tekin á stjórnarfundi ÖBÍ í gær, að sögn Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns ÖBÍ en RÚV greindi fyrst frá. Málið er höfðað á hendur íslenska ríkinu og kaupanda hússins. Ekki tókst að fá kaupanda til að hætta við kaupin en formaður bæjarráðs sagði í samtali fréttastofu að einstaklingar hafi boðið fram nokkrar milljónir til þess að koma húsinu aftur í hendur fjölskyldunnar.
Stefna í vinnslu
„Fólki var ofboðið hvernig þetta mál fór. Þetta er mikið réttlætismál og fordæmisgefandi fyrir stóran hóp. Það er talsvert stór stjórn sem tók ákvörðunina og þetta var einróma álit stjórnar,“ segir Þuríður Harpa í samtali við Vísi.
„Sýslumaður á að gæta hagsmuna einstaklings, sem í þessu tilfelli er fatlaður. Hann viðist ekki hafa notið réttinda og það er enginn annar sem getur stigið inn í. Á þessum tímapunkti var það sýslumanns að sjá til þess að einstaklingurinn hafi viðeigandi úrræði og að einhver gæti hagsmuna hans.“
Ákvörðunin var tekin eftir að samráð var haft við lögmenn réttindasamtakanna.
„Nú sjáum við bara hvað verður. Stefnan er í vinnslu og þegar hún er komin liggur þetta allt ljósara fyrir. Við vonumst auðvitað til þess að vinna þetta mál. Eða að minnsta kosti að þetta verði víti til varnaðar og að það gerist eitthvað hjá ríkinu sem verður til þess að gætt sé að hagsmunum allra,“ segir Þuríður Harpa að lokum.