Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði þann 11. ágúst síðastliðinn að maðurinn skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til föstudagsins 25 ágúst næstkomandi. Lögreglustjóri Suðurlands hafði gert kröfu um gæsluvarðhaldið yrði framlengt um fjórar vikur, eða til 8. september næstkomandi.
Úrskurður þessi var kærður til Landsréttar sem hefur nú úrskurðað að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 31. ágúst. Þetta segir í tilkynningu á vef lögreglunnar.
Rannsókn að mestu lokið
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að farið hafi verið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli brýnna rannsóknarhagsmuna.
Í lögum um meðferð sakamála segir að ekki megi halda mönnum í gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess eða mál hafi verið höfðað gegn honum.
Þá segir að brýnir rannsóknarhagsmunir geti verið vegna þess að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni.
Sveinn Kristján segir að rannsókn málsins sé svo gott sem lokið að öðru leyti en því að beðið sé eftir lokaniðurstöðu krufningar.
Vonast eftir niðurstöðu um mánaðamótin
Sveinn Kristján segir að Lögreglan á Suðurlandi vonist til þess að lokaniðurstaða muni liggja fyrir um mánaðamótin eða fyrr. Niðurstaðan sé gríðarlega mikilvægt gagn í málinu.
Þá segir hann að verði engar gríðarlegar breytur í lokaniðurstöðunni frá bráðabirgðaniðurstöðu þá muni ránnsókn málsins ljúka fljótlega eftir að þær liggja fyrir.
Málið fari þá á borð héraðssaksóknara, sem lögreglan hafi verið í góðu samstarfi við við rannsókn málsins.