Olga Kharlan varð fyrsti keppandinn í skylmingum frá Úkraínu til að mæta rússneskum eða hvít-rússneskum keppanda frá innrás Rússa í Úkraínu í fyrra.
Kharlan vann viðureignina gegn hinni rússnesku Önnu Smirnova, 15-7. Eftir leikinn neitaði Kharlan hins vegar að taka í höndina á Smirnovu. Þær slógu bara sverðunum saman.
„Skilaboðin í dag voru að við, úkraínskt íþróttafólk, er tilbúið að mæta Rússum í kappleikjum en við munum aldrei taka í höndina á þeim,“ sagði Kharlan. Smirnova brást ókvæða við þessu útspili Kharlans og settist niður í 45 mínútur til að mótmæla framferði Kharlans.
Það að vilja ekki taka í spaðann á Smirnovu reyndist Kharlan hins vegar dýrt því hún var dæmd úr leik á HM. Í skylmingum þurfa mótherjar að takast í hendur eftir leik og ekki er nóg að slá sverðunum saman eins.
Kharlan er ein fremsta skylmingakona heims en hún hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari og fjórum sinnum Ólympíumeistari.