Í vetur var tilkynnt um heimkomu landsliðsmannsins Arons Pálmarssonar til FH eftir fjölmörg ár í atvinnumennsku. HSÍ hefur nú gefið út drög að leikjafyrirkomulagi fyrir næsta tímabil og í fyrsta leik Arons hér á landi síðan árið 2009 taka hann og félagar hans í FH á móti bikarmeisturum Aftureldingar.
Íslandsmeistarar ÍBV mæta Stjörnunni í Garðabæ í fyrstu umferð en nýliðar HK og Víkinga eiga erfið verkefni fyrir höndum, Víkingar mæta Val á útivelli í fyrsta leik á meðan HK tekur á móti Haukum sem fóru alla leið í úrslit Olís-deildarinnar á síðasta tímabili.
Margir höfðu kallað eftir því að fyrsti leikur Arons yrði Hafnarfjarðarslagur FH og Hauka. Fyrri leikur liðanna á næsta tímabili fer fram þann 17. nóvember að Ásvöllum og sá síðari 5. apríl í Kaplakrika.
Aron Pálmarsson fær sviðið 7.september og það á heimavelli. Hefði það drepið HSÍ að hafa hinsvegar FH - Haukar í 1.umferð í stað Hafnarfjörður - Mosfellsbær. Það er einhver púki að öskra á mig að Gunni Magg hafi haft eitthvað um þetta að segja. #Handkastið sem vonandi lifir áfram pic.twitter.com/X7no07VF8w
— Arnar Daði (@arnardadi) July 12, 2023
Í kvennaflokki hefst Olís-deildin á stórleik þegar Íslandsmeistarar Vals taka á móti Fram. Töluverðar breytingar hafa orðið á liði Framara síðan á síðustu leiktíð. Einar Jónsson tók við þjálfun liðsins af Stefáni Arnarsyni og þá hefur liðið misst sterka leikmenn. Engu að síður eru leikir Vals og Fram alltaf hörkuslagir.
Bikar- og deildarmeistarar ÍBV fer í heimsókn til Akureyrar í fyrstu umferðinni og leikur gegn KA/Þór. Nýliðar ÍR fá Aftureldingu í heimsókn og þá tekur Stjarnan á móti Haukum.
Hægt er að skoða drög að leikjafyrirkomulaginu á vef HSÍ.