Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu fer mun sáttari frá leiðtogafundi NATO í dag en þegar hann mætti til fundarins í gær fremur neikvæður út í þær áætlanir sem leiðtogar NATO hugðust leggja fram um leið Úkraínu inn í NATO. Stíf fundarhöld Zelenskys með leiðtogum einstakra ríkja í Vilnius í gær og í dag sem og fyrsti fundurinn í Úkraínuráði NATO, virðast hafa sannfært forsetann um að NATO aðild væri innan seilingar.

„Fyrsta fundi í Úkraínuráð NATO var að ljúka og allar bandalagsþjóðirnar samþykktu að framtíð Úkraínu væri í NATO,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti með hina leiðtoga G7 og Zelensky sér við hlið.
„Bandalagsþjóðirnar samþykktu að aflétta kröfunum um aðgerðaáætlun Úkraínu fyrir aðildarumsókn Úkraínu og þróa ferli sem leiðir til aðildar að NATO á sama tíma sem Úkraína heldur áfram að gera nauðsynlegar umbætur,“ sagði Bandaríkjaforseti.
Þá gáfu leiðtogar helstu sjö iðnríkja heims, G7, Úkraínu tryggingar fyrir áframhaldandi stuðningi þar til sigur næðist í stríðinu við Rússa.
„Samhliða þessu munum við veita Úkraínu nauðsynlegar tryggingar gegn hvers kyns árásum sem kunna að verða gerðar á landið,“ sagði Biden.

Zelensky var sáttur við niðurstöðu fundarins.
„Niðurstöður NATO-fundarins í Vilníus eru mjög jákvæðar og skipta Úkraínu afar miklu máli. Ég er þakklátur öllum leiðtogum NATO-ríkjanna fyrir afar raunsæjan og fordæmalausan stuðning,“ sagði forseti Úkraínu.
Í dag hefðu verið gefnar tryggingar fyrir aðild Úkraínu að NATO.
„… og mikilvægur pakki sem inniheldur tryggingu um öryggi. Sendinefnd Úkraínu fer sigursæl heim með loforð um veittan stuðning í þágu Úkraínu, lands okkar og þjóðar og barna okkar. Þau opna okkur leið til nýrrar og aukinnar verndar,“ sagði Volodymyr Zelensky.