Veðurstofa Íslands segir í tilkynningu að líkur séu á vatnavöxtum í Múlakvísl vegna aukins hlutfalls jarðhitavatns í ánni. Þá fylgir því gasmengun við ána sem fylgir jarðhitavatninu. Fyrir neðan má bera Mýrdalsjökul augum úr lofti í myndbandi sem tekið er af Ragnari Axelssyni, RAX, í gær.
Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvásérfræðingur, segir í samtali við Vísi að Veðurstofan fylgist vel með stöðunni. Vatnshæð í Múlakvísl og Markarfljóti fari ekki hækkandi.
„Þannig líkur á hlaupi úr jöklinum eru litlar eins og staðan er núna, þó það sé alltaf möguleiki. En líklega mun þetta leka hægt og rólega og svo klárast, þó maður sé alltaf varkár þegar það kemur að Mýrdalsjökli.“
Óttast ekki Kötlu í bráð
Aukin skjálftavirkni hefur mælst í Kötlu síðustu daga og hófst hrina þar í lok síðasta mánaðar. Stærsti skjálftinn á svæðinu mældist 4,4 þann 30. júní.
Áður hafa sérfræðingar Veðurstofunnar sagt jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli síðustu vikurnar vera þær mestu í Mýrdalsjökli, þar sem Kötlujökul er að finna, síðan haustið 2016.Sé talið að þetta séu merki um jarðhitavirkni á svæðinu en að ekki væri hægt að útiloka kvikuhreyfingar. Bjarki tekur fram að Veðurstofan fylgist vel með en enn sem komið er sé ekkert sem bendi til þess að Katla gæti gosið þá og þegar.
„Rafleiðnin í Múlakvísl tengist ekki kvikuhreyfingu, heldur er öflugt jarðhitakerfi undir jöklinum sem gerir það að verkum að það rekur jarðhitavatn út í Múlakvísl.“
Bjarki bætir því við að vegfarendur þurfi að fara að öllu með gát í grenndinni. „Þá sérstaklega í dældum og lægðum þar sem gasið getur safnast saman.“