„Ég var að keyra fyrir aftan rútuna þegar hún stoppar allt í einu og allir hlaupa út. Bílstjórinn stöðvaði hana á miðjum veg sem var ótrúlega vel gert því að hann kom þannig í veg fyrir að meira tjón yrði á gróðrinum þarna í kring,“ segir Georg Aspelund í samtali við Vísi. Hann tók myndband af rútunni sem horfa má á neðst í fréttinni.
Eins og fram hefur komið sendu Brunavarnir Árnessýslu tvo bíla á vettvang. Slökkvistörf tókust vel en eldur kviknaði í rútunni á viðkvæmum stað í Þingvallaþjóðgarði.
Georg segist hafa rætt við bílstjóra rútunnar, sem var að ferja ítalska ferðamenn, eftir að mannskapurinn hafði komið sér út. Hann hafi fundið lykt og ákveðið að láta staðar numið þegar í ljós kom að eldur hafði kviknað í bílnum.
„Þetta var víst nýlegur bíll og hann taldi að það hefði líklega kviknað í rafgeyminum. Hann ákvað að stöðva bílinn og var svo ótrúlega snöggur að losa bílinn. Farangurinn bjargaðist en hann náði ekki að sækja tannburstann sinn. Það er það eina sem hann missti.“