Aðfaranótt miðvikudags greindi Íslandsbanki fá því að Birna hefði sagt upp störfum. Finnur Árnason stjórnarformaður bankans sagði starfslokasamning hafa verið gerðan við Birnu í samræmi við ráðningarsamning hennar og í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki. Samningurinn yrði þó ekki birtur fyrr en í uppgjöri bankans.
Er það samróma álit meirihluta nefndarmanna fjárlaganefndar að samningurinn verði birtur strax, ekki sé ástæða til að bíða með þær upplýsingar.
Finnur sagði í svari við skriflegri fyrirspurn fréttastofu í morgun að upplýsingarnar verði birtar eins og lög geri ráð fyrir.
Björn Leví Gunnarsson, Pírati og nefndarmaður fjárlaganefndar, segir tilgangslaust að málinu sé slegið á frest. „Þetta er ekkert sem má vera í myrkrinu. Ef þetta þolir ekki dagsljósið þá er þetta ekki góður starfslokasamningur,“ segir Björn Leví. Ef til standi að birta samninginn þá sé tilgangslaust að málinu sé slegið á frest.
Björn Leví segir málið einkennast af endalausum tilraunum bankans til þess að gera lítið úr því. Nefndin muni beita sér í málinu. „Með því að kalla eftir að bankinn sem að ríkissjóður og landsmenn eru enn stærsti eigandi er af fái að sjá það sem skiptir máli í þessu öllu,“ segir hann og heldur áfram: „Það er verið að velja úr því sem er verið að sýna okkur og það gengur ekki upp“.
„Stjórn hefur ekki tekið afstöðu til þess að birta starfslokasamning Birnu eftir að þessar kröfur komu fram,“ segir Finnur í samskiptum við fréttastofu.
Fréttin hefur verið uppfærð.