„Þetta er ævintýrið okkar hérna í Skaftárhreppi,“ sagði þáverandi oddviti um gestastofuna í beinni útsendingu frá Klaustri fyrir þremur árum. Núna er það að raungerast. Ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs er að verða tilbúin, eins og sjá mátti í frétt Stöðvar 2.

„Við vonumst til þess að fá húsnæðið afhent í júlí og að við getum síðan flutt inn í ágúst og byrjað að taka á móti gestum,“ segir Benedikt Traustason, sérfræðingur hjá Vatnajökulsþjóðgarði.
Húsið rís á suðurbakka Skaftár á þeim stað sem Jóhannes Kjarval listmálari taldi bjóða upp á besta útsýnið til Klausturs.
„Það verður útsýnispallur á nýju gestastofunni þar sem fólk getur séð yfir Systrafoss, Systrastapa og Öræfajökul, sýnina yfir í Vatnajökulsþjóðgarð,“ segir Benedikt.

Gestastofuna teiknaði Birgir Teitsson hjá Arkís arkitektum.
„Þetta er frábær arkitektúr að mínu mati. Staðsetningin var valin vegna þess að Magnús í Hæðargarði gaf okkur þessa rausnarlegu gjöf, sem er landið hér.

Og það sem í raun varð ofan á við staðarvalið er að hér á að byggja göngubrú frá gestastofunni yfir á Kirkjubæjarklaustur,“ segir Benedikt.
Vegna brúarsmíðinnar stendur núna yfir leit að blýantsteikningu sem Jóhannes Kjarval rissaði upp af brú á þessum stað en Lilja Magnúsdóttir í Kirkjubæ fer fyrir leitinni. Kjarval var fæddur í sveitinni árið 1885, á bænum Efri Ey í Meðallandi, en hann lést árið 1972.

Lilja segir að teikningin hafi lengi verið uppi á vegg í kompu við hlið gamla sláturhússins á Klaustri. Meðan teikningin finnst ekki hafa eldri íbúar sem muna eftir henni verið beðnir um að rissa upp brú Kjarvals eftir mynni í von um hún geti orðið fyrirmynd.
Gestastofan verður vinnustaður fimm til sex starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs en Benedikt undirbýr sýningarhlutann.

„Við höfum verið í bráðabirgðahúsnæði eiginlega frá því þjóðgarðurinn var stofnaður, í fimmtán ár, og við getum bara ekki beðið með að flytja inn í nýju gestastofuna.
Markmið okkar er að taka á móti þeim gestum sem eiga leið um Skaftárhrepp, reyna að hægja á þeim. Fá þá til að skoða svæðin hér í kring.
Þannig eru þeir líklegri til þess að nýta sér þá þjónustu sem hér er í boði,“ segir sérfræðingur Vatnajökulsþjóðgarðs.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá útsendingu Stöðvar 2 frá bökkum Skaftár sumarið 2020: