Við ræðum einnig við Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um stöðuna á áfengismarkaði, sem hann líkir sjálfur við villta vestrið. Hann segir að illa hafi gengið að koma áfengisfrumvörpum út úr ríkisstjórn.
Þá heyrum við frá leikhússtjóra Gaflaraleikhússins, sem sá á eftir ævistarfinu í dag, þegar leikhúsið var tæmt og því lokað. Hún kallar eftir viðbrögðum frá listafólki og spyr hvar upprennandi listamenn eigi að hafa aðstöðu.
Kristján Már Unnarsson verður í beinni frá Melgerðismelum í Eyjafirði. Á morgun er flugdagur á Akureyrarflugvelli, en við tökum forskot á sæluna í beinni og kíkjum á flughátíðina.
Eins verður fjallað um unga og einstaka veiðimenn í Elliðaárdal og unga lögreglukonu sem útskrifaðist úr lögreglufræðum eftir harða baráttu við kerfið.
Þetta og fleira í kvöldfréttum okkar á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan 18:30.