Pútín fundaði í dag með hópi rússneskra herbloggara en á meira en tveimur tímum ræddu þeir marga anga innrásar Rússa í Úkraínu.
Meðal þess sem Pútín sagði á fundinum var að Úkraínumenn hefðu misst 160 skriðdreka og rúmlega 360 annars konar brynvarin farartæki í gagnsókninni, sem hófst fyrir nokkrum dögum. Hann sagði Rússa hafa misst 54 skriðdreka á þessu tímabili.
Ummæli Pútín um að Rússar hafi misst 54 skriðdreka í gagnsókn Úkraínumanna hafa vakið nokkra athygli. Sérstaklega vegna þess að ráðamenn í Rússlandi þykja mun líklegri til að gefa upp lægri tölur um mannfall og töpuð hergögn en raunin er. Úkraínumenn segjast hafa grandað 58 rússneskum skriðdrekum frá því á fimmtudaginn í síðustu viku og þeir þykja sömuleiðis líklegir til að ýkja tölur sem þessar.
Sjálfboðaliðar sem fara yfir myndefni frá Úkraínu og Rússlandi og telja skrið- og bryndreka sem búið er að granda, auk annarra hergagna, segir tölur Pútín langt frá því sem búið er að sanna. Samkvæmt því myndefni sem meðlimir Oryx hafa skoðað hafa bæði Rússar og Úkraínumenn misst færri en tíu skriðdreka, svo staðfest sé.
Talaði um aðra innrás í norðurhluta Úkraínu
Pútín var spurður út í árásir rússneskra andstæðinga stjórnvalda Rússlands í Belgorod-hérað Rússlands. Þessar árásir hafa verið gerðar með stuðningi Úkraínumanna. Forsvarsmenn tveggja hópa sem hafa gert þessar árásir heita frekari áhlaupum yfir landamærin.
Hann sagði að herinn myndi taka skref til að koma í veg fyrir frekari árásir og sagði að mögulega yrði skapað einhverskonar „hreint svæði“ í Úkraínu. Til þess þyrfti aðra umfangsmikla innrás í norðurhluta Úkraínu.
Hernaðarsérfræðingar sem vakta rússneska herinn segja að allar hersveitir Rússa séu á víglínunum í Úkraínu eða þar nærri. Þeir hafi engan herafla til að opna nýja víglínu.
Útilokaði ekki herkvaðningu
Forsetinn sagði einnig, samkvæmt Reuters, að engin þörf væri á frekari herkvaðningu í Rússlandi og hélt því fram að frá því í janúar hefðu rúmlega hundrað og fimmtíu þúsund manns gengið til liðs við rússneska herinn. Hann vildi þó ekki útiloka að farið yrði í aðra herkvaðningu.
„Sumar tölur benda til þess að við þurfum eina milljón eða tvær,“ sagði Pútín um mögulega herkvaðningu. „Það fer eftir því hvað við viljum.“ Pútín sagði einnig að engin þörf væri á herlögum í Rússlandi.
Forsetinn talaði einnig um sprengingu Kakhovka stíflunnar, sem brast þann 6. júní. Hann sagði Úkraínumenn hafa skotið eldflaug úr HIMARS-vopnakerfi á stífluna. Pútín gaf þar að auki til kynna að flóðin í kjölfar þess að stíflan brast hafi komið niður á gagnsókn Úkraínumanna.
Sérfræðingar segja mjög ólíklegt að stíflan hafi brostið eftir eldflaugaárás. Öfluga sprengingu hafi þurft til og hún hafi helst þurft að eiga sér stað inn í stíflunni sjálfri. Rússar hafa stjórnað stíflunni í marga mánuði og yfirvöld í Úkraínu sögðu í október að Rússar hefðu komið þar fyrir miklu magni sprengiefna.