„Aðfaranótt laugardags varð hér í sveit, nálægt einum af vinsælli ferðamannastöðum sveitarinnar, bílslys. Fjórir voru í bílnum og sluppu ótrúlega vel. Bíllinn er á hvolfi, mjög illa farinn,“ svo hefst færsla Ólafar Hallgrímsdóttur á Facebook. Ólöf rekur ferðaþjónustufyrirtæki í Mývatnssveit.
Hún segir að búið sé að hafa samband við lögregluna og biðja um að bíllinn verði fjarlægður, þar sem hann liggi í klessu við fjölfarinn veginn og valdi því að ökumenn stoppa við hann, sem einnig valdi slysahættu.
„Þegar slysið varð mætti lögreglan a staðinn og gulur borði settur á hræið. Fróðlegt væri að vita á hvers ábyrgð er bílhræið þarna umvafið gulum löregluborða. Ég bara get ekki skilið afhverju er ekki drifið í að fjarlægja bílinn sem allra fyrst. Er þetta Ísland í dag, allir án ábyrgðar og allt gerist á hraða snigilsins?“ spyr Ólöf.
Ökumaður og farþegar heppnir með bjargvætti
Ríkisútvarpið greindi frá bílslysinu í gærkvöldi. Í frétt Rúv segir að vinahópur úr Reykjahlíð hafi fundið bílinn eftir að hafa heyrt lágt suð í fjarska. Vinirnir hafi verið nýkomnir heim eftir langan vinnudag en samt ákveðið að renna á hljóðið. Hljóðið hafi beint þeim í átt að Grjótagjá, þar sem bíllinn lá í klessu.
Allir sem voru um borð í bílnum hafi verið komnir út úr honum og svo vel hafi viljað til að í vinahópnum úr Reykjahlíð voru tveir björgunarsveitarmenn og einn slökkviliðsmaður.
Þeir hafi því hlúð að fólkinu og ekið því til móts við sjúkraflutningamenn, sem fluttu það á spítala tið skoðunar.