Forsaga málsins er sú að Síminn stöðvaði dreifingu á ólínulegu efni Sjónvarps Símans yfir kerfi Vodafone 1. október árið 2015. Í ákvörðun Fjarskiptastofnunar, sem þá hét Póst- og fjarskiptastofnun, var rakið að þeir sem vildu kaupa aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni Símans, svonefndu Sjónvarpi Símans Premium, hefðu því síðan þurft að vera með myndlykil frá Símanum. Áskrift að efninu hafi því eingöngu verið í boði í gegnum dreifikerfi Símans og nær eingöngu á neti Mílu.
Aðeins hægt að kaupa í gegnum fjarskiptanet
Í málinu var því deilt um hvort að Síminn hafi brotið gegn ákvæði fjölmiðlalaga sem fjallar um að fjölmiðlaveitu sé óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Síminn samdi ekki við Sýn annars vegar og Ljósleiðarann hins vegar um flutning og dreifingu á ólínulegu myndefni Símans; tímaflakk, frelsi og leigu á myndefni.
Í dómi Landsréttar sagði að Síminn hefði framið brot gegn þessu ákvæði fjölmiðlalaga með því að hafa beint viðskiptum þeirra sem vildu kaupa aðgang að Sjónvarpi Símans Premium að dótturfélaginu Mílu enda hefði ekki verið unnt að kaupa efni úr efnisveitunni nema í gegnum þetta fjarskiptanet.
Féllst Landsréttur því á niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar og taldi engin efni til að hrófla við mati stofnunarinnar á fjárhæð sektarinnar upp á níu milljónir.
Þessu vildi Síminn ekki una og fékk áfrýjunarleyfi í málinu til Hæstaréttar. Rétturinn tekur aðeins fyrir mál sem talin eru geta verið fordæmisgefandi eða hafa mikla þýðingu að fá leyst úr lagalegum álitamálum.
Kröfum um rökstuðning ekki fullnægt
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómur Landsréttar hefði ekki fullnægt þeim kröfum sem gera yrði til rökstuðnings í dómi fyrir niðurstöðu um sönnunar- og lagaatriði samkvæmt lögum um einkamál.
Þá taldi rétturinn að meðferð málsins hefði farið úr skorðum fyrir héraðsdómi með því að í niðurstöðu dómsins hefði verið farið út fyrir þann grundvöll sem aðilar höfðu markað málinu og hún reist á málsástæðu sem aðilar hefðu ekki byggt á. Ætla mætti að það hefði meðal annars verið vegna skorts á sérfræðilegri þekkingu á umhverfi fjarskipta í skilningi laga um fjölmiðla og samspili þeirra við reglur um fjölmiðlaveitur.
Héraðsdómara hefði því borið að kveða til sérfróðan mann til dómstarfa. Ekki hefði verið hægt að bæta úr þeim galla á meðferð málsins í héraði fyrir Landsrétti. Dómur Landsréttar sem og dómur héraðsdóms voru því ómerktir og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Vísir er í eigu Sýnar sem er aðili að deilunni.