Vals­konur tryggðu sér titilinn í Eyjum

Dagur Lárusson skrifar
Valskonur vel að Íslandsmeistaratitlinum komnar
Valskonur vel að Íslandsmeistaratitlinum komnar Vísir/Anton Brink

Vals­konur eru Ís­lands­meistarar eftir sigur á ÍBV í þriðja leik liðanna í úr­slita­ein­vígi Olís-deildar kvenna.

Valur kom inn í leikinn í dag með 2-0 for­ystu eftir að hafa unnið fyrstu tvo leikina frekar örugg­lega og því var ÍBV liðið með bakið upp við vegg.

Sóknar­leikur Vals var virki­lega góður fyrstu mínúturnar og var liðið komið með þriggja marka for­ystu snemma í leiknum. ÍBV náði þó alltaf að halda í við Val því Marta varði virki­lega vel í markinu.

Eftir að hafa verið undir fyrstu tuttugu mínútur leiksins þá náði ÍBV að jafna leikinn í 10-10 en liðið náði þó aldrei for­ystunni. Leikurinn var stál í stál restina af fyrri hálf­leiknum en það var þó Valur sem fór með for­ystuna í hálf­leikinn, staðan 12-13.

Vals­konur byrjuðu seinni hálf­leikinn einnig betur og skoruðu fyrstu þrjú mörkin og var fólk farið að kalla eftir leik­hléi hjá Sigurði Braga­syni, þjálfara ÍBV, en þá skoraði Harpa Val­ey mikil­vægt mark og það stöðvaði blæðinguna.

Valur með tveggja til þriggja marka for­ystu næstu mínúturnar en þegar loka­kaflinn tók við þá var for­ystan komin niður í eitt mark. Síðustu þrjár mínúturnar voru í raun ó­trú­legar þar sem boltinn var dæmdur af Val trekk í trekk og ÍBV fékk því mörk tæki­færi til þess að jafna leikinn en það gerðist þó aldrei. Síðasta tæki­færi ÍBV til þess að gera það var þegar um mínúta var eftir en þá skaut Hrafn­hildur Hanna í slánna og út. Eftir það skoraði Thea Imani og tryggði Val sigurinn. Loka­tölur 23-25.

Vísir/Anton Brink

Af hverju vann Valur?

Þrátt fyrir á­hlaup ÍBV þá náðu Vals­konur alltaf að halda uppi sínum gæðum, bæði í sóknar­leiknum og líka í mark­vörslunni. Elín Rósa og Þór­ey Anna stigu upp á mikil­vægum augna­blikum sem og Sara Sif í markinu og þær fór fyrir sínu liði á loka­kaflanum.

Valskonur fögnuðu vel og innilega í leikslokVísir/Anton Brink

Hverjar stóðu upp úr?

Þór­ey Anna átti hreint út sagt frá­bæran leik en hún skoraði níu mörk. Hrafn­hildur Hanna átti enn og aftur frá­bæran leik í liði ÍBV en hún skoraði einnig níu mörk.

Hvað fór illa?

Það voru nokkrir tapaðir boltar og glötuð tæki­færi sem fóru for­görðum hjá ÍBV undir lokin sem hefðu getað gert gæfu­muninn. Sunna tapaði boltanum tvisvar sinnum í stöðu þar sem ÍBV hefði getað jafnað leikinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira