Innlent

Hundruð dauðra fugla í fjörunni á Fitjum í Njarð­vík

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ragnar segir slíkan fjöldadauða koma í bylgjum síðastliðin misseri. Í fyrra hafi súlur drepist, í ár séu það ritur.
Ragnar segir slíkan fjöldadauða koma í bylgjum síðastliðin misseri. Í fyrra hafi súlur drepist, í ár séu það ritur. Ragnar Guðleifsson

Tæp­lega hundrað ritur auk nokkurra dauðra gæsa og álfta fundust dauðar í sjávar­málinu og við tjarnirnar á Fitjum í Njarð­vík. Mein­dýra­eyðir segir að hræjum fuglanna hafi verið komið yfir til Mat­væla­stofnunar til rann­sóknar. Sér­fræðingar Mat­væla­stofnunar hafa áður viðrað á­hyggjur sínar af ó­út­skýrðum fjölda­dauða rita.

Víkur­fréttir greindu fyrst frá dauða fuglana. Ragnar Guð­leifs­son, mein­dýra­eyðir, náði í fugls­hræin í gær. Í sam­tali við Vísi segir hann að þeim hafi nú verið komið til Mat­væla­stofnunar. Segist hann telja nokkuð ljóst að hér sé um að ræða dauða sem rekja megi til af­brigði fugla­flensunnar.

„Þetta virðist koma í ein­hvers konar bylgjum. Núna virðist þessi flensa leggjast á ritin en í fyrra voru það súlurnar,“ segir Ragnar. Hann tekur hins vegar fram að dauðinn sé til rann­sóknar hjá Mat­væla­stofnun. Vísir hefur sent stofnuninni fyrir­spurn vegna málsins.

Fjölda­dauðinn ó­út­skýrður

Vísir greindi í síðustu viku frá því að Mat­væla­stofnun hefði miklar á­hyggjur af ó­út­skýrðum fjölda­dauða rita, auk þess sem stofnuninni hefði einnig borist margar til­kynningar um dauðar álftir, víðs­vegar um landið.

Sagði Brigitte Brug­ger, sér­greina­dýra­læknir hjá Mat­væla­stofnun, í sam­tali við Vísi að ekki hefði greinst fugla­flensa í þeim sýnum sem stofnunin hefði tekið úr dauðum fuglum hingað til, nema einu.

Sam­kvæmt Brigitte er þekkt að ritur geti drepist í stórum stíl ef þær komast í kinni við sýkt fersk­vatn. Fjölda­dauði rita nú sé hins vegar á stærra svæði en áður. Í einum fuglinum fannst venju­leg inflúensa en fugla­flensa hefur ekki enn þá fundist.

Þá segir hún að hinar tegundirnar, sem fóru illa út úr fugla­flensunni í fyrra, virðast vera að sleppa núna. „Við finnum ekkert. Það eru engir dauðir fuglar,“ segir Brigitte. Hugsan­legt sé að fugla­flensan sé að mestu gengin yfir í þessum tegundum en sé núna komin yfir í endur og jafn vel aðrar tegundir. „Fólk er að sjá súlur núna og þær eru bara sprækar,“ segir hún.


Tengdar fréttir

Álftir byrjaðar að drepast

Matvælastofnun hefur miklar áhyggjur af óútskýrðum fjöldadauða rita. Einnig hafa borist margar tilkynningar um dauðar álftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×