Það er Morgunblaðið sem greinir frá.
Það segist hafa undir höndum gögn sem sanni að starfsmaðurinn hafi flett upp þjóðþekktum einstaklingum í lyfjagáttinni. Blaðið hefur áður greint frá því að þetta hefði gerst og að upplýsingunum hefði verið dreift til þriðja aðila.
Embætti landlæknis, Lyfjastofnun og Persónuvernd hafa staðfest að hafa borist ábendingar um athæfið.
Morgunblaðið hefur eftir Þórbergi Egilssyni, framkvæmdastjóra verslanasviðs Lyfju, að fyrirtækinu hafi borist „erindi“ um tilefnislausar uppflettingar fyrrverandi starfsmanns í Lyfjagátt fyrir þó nokkru síðan.
„Tilefnislaus uppfletting í lyfjaávísanagátt er brot á lögbundinni þagnarskyldu en slík brot heyra undir viðeigandi eftirlitsstofnanir og lögreglu. Lyfja beinir slíkum málum í lögbundinn farveg, þar á meðal með kæru til lögreglu og tilkynningu til Lyfjastofnunar. Viðkomandi stofnanir taka síðan ákvörðun um framhald málsins,“ sagði Þórbergur í skriflegu svari til Morgunblaðsins.
Blaðið segist hafa gögn um fleiri uppflettingar á þekktum einstaklingum.