„Það er ekki fýsilegt að koma á langtíma samstarfi við Vesturveldin í Norðurskautsráðinu, jafn vel eftir að það tekur aftur til starfa að fullu af því að traustið er ekki lengur til staðar,“ sagði Korchunov í dag á fundi í Rússlandi um Norðurslóðamálefni, en hann gegnir stöðu formanns fastafulltrúa Rússlands í Norðurskautsráðinu. Rússneski ríkisfjölmiðillinn Tass greindi frá þessu.
Auk Rússlands eiga Bandaríkin, Kanada og öll Norðurlöndin sæti í Norðurskautsráðinu. Þar að auki eiga fjölmörg ríki áheyrnarfulltrúa, svo sem Bretland, Þýskaland, Frakkland, Kína, Indland og Japan.
Síðasti ráðherrafundurinn fór fram í Reykjavík í maí mánuði árið 2021. Þá tóku Rússar við formennsku í ráðinu af Íslendingum.
Þann 3. mars árið 2022 tilkynntu öll ríki sem hafa fastafulltrúa nema Rússland að þau hygðust ekki mæta á fundi ráðsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Hefur virkni ráðsins verið í lamasessi síðan þá, nema í nokkrum afmörkuðum verkefnum sem ríkin sjö sinna án aðkomu Rússa.
Norðmenn taka við
Korchunov sagði að samskipti Rússlands og Vesturveldanna á norðurslóðum einkenndust af virðingu við málefni svæðisins, sem verður sífellt mikilvægara. Samskiptin væru nú hins vegar öll óformleg.
Norðmenn taka við kefli formennskunnar á fundi sem haldinn verður dagana 10. til 11. maí næstkomandi. Ríkin sjö hafa ákveðið að starfa án Rússa í ráðinu.