Leynileg gögn sem evrópskar leyniþjónustustofnanir komust yfir frá því á seinni hluta síðasta árs sýna að stjórnvöld í Kreml ræddu fyrst um að ýta undir hreyfingu gegn stríðinu í Úkraínu til að grafa undan stuðningi við Úkraínumenn í september, að sögn Washington Post.
Sérstaklega vildu þeir hjálpa til við að mynda bandalag á milli vinstrijaðarflokksins Vinstrisins (þ. Die Linke) og Söhru Wagenknecht, mest áberandi þingmanns hans, annars vegar og hægrijaðarflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD) hins vegar. Wagenknecht hefur verið hávær gagnrýnandi stuðnings þýskra stjórnvalda við Úkraínu.
Ekkert kemur fram í rússneskum gögnunum um samskipti á milli útsendara rússneskra stjórnvalda við mögulega bandamenn í Þýskalandi. Washington Post segir hins vegar að rannsókn blaðsins sýni að í það minnsta einn náinn ráðgjafi Wagenknecht og nokkrir liðsmenn AfD hafi verið í sambandi við rússneska embættismenn um það leyti sem Kremlverjar ræddi um að reyna að hafa áhrif á þýsk stjórnmál, sér í vil.
Auk þess að reyna að ýta undir bandalag ólíkra stjórnmálaafla í Þýskalandi eru Rússar sagðir hafa rætt um að styðja mótmæli jafnt hægri- og vinstriöfgamanna gegn þýsku ríkisstjórninni.

Skrifuðu stefnuyfirlýsingu fyrir AfD
Draumur rússneskra embættismanna var að hjálpa til við að mynda bandalag sem gæti unnið meirihluta í kosningum, hvort sem það væri á sveitarstjórnarstigi eða í landsmálum. Þá vildu þeir blása byr í segl AfD þannig að flokkurinn næði meira fylgi en þeim þrettán prósentum sem hann hafði þá í könnunum.
Ráðgjafar Kremlarstjórnar gengu jafnvel svo langt að skrifa drög að stefnuyfirlýsingu fyrir AfD þar sem refsiaðgerðir gegn Rússlandi væru sagðar andstæðar hagsmunum Þýskalands.
„Óhæfir stjórnmálamenn sem eru ekki færir um að meta afleiðingar ákvarðanna sinna hafa dregið Þýskalandi inn í átök við Rússland, náttúrulegan bandamann landsins okkar og þjóðar,“ sagði í drögunum.
Ekki er ljóst hvort að plaggið komst í hendur þýska flokksins. AfD hefur þó haldið á loft rökum Rússa um stríðið í Úkraínu. Þar á meðal að Bandaríkin hafi á einhvern hátt borið ábyrgð á því að það braust út og að Rússar verji sig einfaldlega fyrir útþenslustefnu Atlantshafsbandalagsins til austurs. Fulltrúar flokksins hafa þegið dýrar boðsferðir til Rússlands.
Aðferðir Rússa nú eru sagðar gamalkunnar frá því í kalda stríðinu þegar þeir reyndu að hafa áhrif á og nýta sér friðarhreyfinguna í Þýskalandi og víðar til þess að grafa undan vestrænni samstöðu.

Sögð kanslaraefni bæði vinstris og hægris
Hvort sem það var fyrir tilstilli Rússa eða ekki hafa þeir fengið óskir sínar uppfylltar að hluta. Um þrettán þúsund manns tóku þátt í mótmælum þar sem þess var krafist að þýska ríkisstjórnin hætti að senda vopn til Úkraínumanna í Berlín í febrúar.
Á mótmælunum ávarpaði Wagenknecht mannfjöldann og tengdi vopnasendingarnar við innrás nasista í Sovétríkin í síðari heimsstyrjöldinni.
„Við viljum ekki að Þýskaland dragist dýpra inn í þetta stríð,“ sagði Wagenknecht sem skoðanakannanir benda til að gæti fengið allt að fjórðung atkvæða í kosningum.
Fjöldi félaga í AfD tók þátt í mótmælunum og fagnaði orðum Wagenknecht, þar á meðal Jürgen Elsässer, ritstjóri hægrijaðartímaritsins Compact. Tímaritið lýsti því nýlega yfir á forsíðu sinni að Wagenknecht væri besta kanslaraefnið sem væri í boði. Hún væri frambjóðandi bæði fyrir vinstrið og hægrið. Wagenknecht hefur sagt opinberlega að hún íhugi að stofna sinn eigin stjórnmálaflokk.
Wagenknecht sjálf útilokaði bandalag eða samstarf við AfD í yfirlýsingu sem hún sendi Washington Post vegna fréttar blaðsins. Það væri fáránlegt að gefa í skyn að hún hefði verið í nokkurs konar samskiptum við rússneska embættismenn eða fulltrúa þeirra um slíkt.