Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur saman á lokuðum fundi á mánudag þar sem skýrsla Skúla Eggerts Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, um Lindarhvol verður kynnt.
Þá hefur meirihluti nefndarinnar farið fram á það að opinn fundur með ríkisendurskoðanda, fyrrverandi ríkisendurskoðanda og settum ríkisendurskoðanda verði haldinn til þess að ræða innihald hinnar margumþrættu greinargerðar þess síðastnefnda um Lindahvolsmálið. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður nefndarinnar.
„Það er ekki alveg ljóst hvort hægt er að halda þann fund. Það er allavega ljóst að að minnsta kosti einn þessara manna hefur ekki hug á því að mæta á opinn fund nefndarinnar,“ segir hún.
Vilji ekki mæta „múlbundinn“ á fundinn
Heimildir fréttastofu herma að sá sem ekki vill mæta á fundinn sé Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi í Lindarhvolsmálinu. Hann er sagður ekki vilja koma „múlbundinn“ á fund til þess eins að ræða greinargerð sem hann má ekki ræða lögum samkvæmt. Fyrr á árinu sagði hann í viðtali við Vísi að hann teldi skuggalegt að greinargerð hans hafi ekki fengið að líta dagsins ljós. Enn bólar ekkert á greinargerðinni.
„Burtséð frá umfjöllun nefndarinnar um Lindarhvolsskýrsluna og greinargerðina, sem nefndin hefur aðgang að í trúnaði eins og hún hafði og hefur enn, þá er staðan á birtingu greinargerðarinnar alltaf sú sama. Það mál er hjá forseta Alþingis, það er ekki hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd,“ segir Þórunn.
Hefur ekki kynnt sér efni greinargerðarinnar
Sem áður segir hafa þeir þingmenn, sem sæti eiga í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, aðgang að greinargerð Sigurðar sem og skýrslu Skúla Eggerts, sem kynnt verður á mánudag. Samkvæmt heimildum Vísis er nokkuð eftirtektarvert ósamræmi milli skjalanna tveggja um sama efnið. Þórunn segist ekkert geta sagt til um það.
„Ég get það ekki af því ég á eftir að lesa greinargerðina og trúnaðurinn um hana er þannig að þingmenn geta ekki vitnað beint í hana en við getum kynnt okkur efni hennar. Og ég á eftir að gera það.“