Íslenski boltinn

Leikur FH og Stjörnunnar færður fram um klukku­stund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
FH og Stjarnan mætast á laugardag. 
FH og Stjarnan mætast á laugardag.  Vísir/Hulda Margrét

Þó hvorugu liðinu sé spáð frábæru gengi í sumar þá er leikur FH og Stjörnunnar umtalaðasti leikur 2. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu. Hann hefur nú verið færður fram um klukkustund vegna handboltaleiks FH sama dag.

FH vildi upprunalega víxla á heimaleikjum við Stjörnuna þar sem grasið í Kaplakrika er ekki klárt. Stjarnan sagðist ekki geta orðið við þeirri bón þar sem liðið myndi þá ekki leika heimaleik í heilar sex vikur sem og völlurinn sé einfaldlega fullbókaður nú á laugardaginn þegar leikurinn fer fram.

FH hefur því ákveðið að spila leikinn á frjálsíþróttavelli sínum til að hlífa grasinu á Kaplakrikavelli. Sem stendur verður leikurinn spilaður þar en mun þó hefjast klukkustund fyrr en áætlað var. Ástæðan er sú að úrslitakeppni í Olís-deild karla í handbolta fer af stað síðar sama kvöld.

Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, staðfesti í viðtali við Fótbolti.net að FH hefði sótt um undanþágu til að færa leikinn fram um klukkustund. Á vef KSÍ má sjá að leikurinn hefur verið færður og hefst nú klukkan 16.00. 

Hann segir að planið sé að vera með um 300 sæti en pláss verði fyrir 1000 til 1200 manns á vellinum á laugardag. Þá segir hann að ekkert mál verði fyrir Stöð 2 Sport að sýna beint frá leiknum.

„Eina sem þarf er lyfta fyrir aðalmyndavélina þeirra, annars er allt í standi varðandi það.“

Það hefur þó ekki enn verið staðfest að leikurinn fari fram á Miðvellinum, frjálsíþróttasvæði FH, en vænta má niðurstöðu síðar í dag. Fari svo að hann verði spilaður þar má reikna með miklu fjöri á svæði FH-inga á laugardaginn kemur.

  • Klukkan 16.00 mætast FH og Stjarnan í Bestu deild karla. Að öllum líkindum á Miðgrasinu.
  • Klukkan 19.30 mætast FH og Selfoss í 8-liða úrslitum Olís deildar karla í handbolta.

Báðir leikir verða í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×