Flugvél Play sem lenti frá Liverpool klukkan 13:17 hefur setið föst lengst vélanna. Farþegar í þeirri flugvél sátu því fastir í um sjö tíma á vellinum.
„Fyrir um tíu mínutum var byrjað að afferma vélarnar. Það verður gert í lendingarröð, þannig að vélin frá Liverpool verður fyrst og svo koll af kolli. Alls eru þetta fjórtán vélar með 2157 farþega,“ segir upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við fréttastofu.
Öllu flugi hefur ýmist verið aflýst eða frestað. Síðasta flugvélin sem lagði af stað frá vellinum fór af stað klukkan 14:55. Flugferðum var frestað til klukkan 19 eða síðar í kvöld en gul viðvörun rennur úr gildi klukkan 19 á suðvesturhorninu.
„Það má ekki hafa landgangana opna þegar vindhviður fara yfir 49 hnúta. Þær eru búnar að vera í 55. Vinhviður hafa gengið það mikið niður nú að það er óhætt að opna þær.“
Björgunarsveitir hafa einnig haft í nægu að snúast í dag og hafa allar sveitir á höfuðborgarsvæði verið kallaðar út. Verkefnin eru orðin hundrað talsins. Nánar um það hér: