Greint var frá því fyrir helgi að Fréttablaðið heyrði sögunni til. Blaðið hafði verið starfrækt í 22 ár en hátt í hundrað manns misstu vinnuna. Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði í samtali við fréttastofu þetta marka sorgardag fyrir íslenska fjölmiðlun.
Á sama tíma og útgáfu blaðsins var hætt var sjónvarpsútsendingum Hringbrautar hætt og var starfsemi fréttavefs Fréttablaðsins, frettabladid.is, hætt. Þó var enn hægt að heimsækja vefinn þar til í dag. Nú kemur upp hvítur skjár með stuttum texta.
„Síðasta fréttin hefur verið birt. Fréttablaðið og Fréttablaðið.is þakka samfylgdina og bendum lesendum okkar á að fréttir verða áfram sagðar á DV.is og Hringbraut.is,“ segir á vefnum.
Textinn kemur einnig upp þegar reynt er að skoða gamlar fréttir á vefnum. Þó er enn hægt að glugga í gömul Fréttablöð frá árunum 2005 til 2019 hér á Vísi.