Halldór, sem er betur þekktur sem Dóri DNA, opnaði Mikka ref ásamt Ben Boorman árið 2021. Þeir hafa rekið kaffi- og vínbar við Hverfisgötu 18, gegnt Þjóðleikhúsinu, og kaffisöluútibúi í Grósku hugmyndahúsi á háskólasvæðinu. Breyting verður á klukkan 16:00 í dag en þá verður kaffisölunni í Grósku lokað í síðasta skipti.
„Veitingabransinn er orðinn ansi snúinn og það borgar sig ekki eins og staðan er núna að selja kaffi. Við erum voða fegnir að vera komnir út úr því og að vera komnir í eitthvað sem við lögðum upphaflega upp með að gera. Verði kaffivélum miðbæjarins af því,“ segir Halldór við Vísi.
Sá upphaflegi tilgangur var að selja gott vín. Halldór segir nóg af góðu kaffi í Reykjavík ennþá en afskaplega fáir staðir einblíni á að bjóða upp á náttúruvín og stemmingu.
Héðan í frá verður opið á Hverfisgötunni frá klukkan 17:00 og fram á kvöld á meðan fólk er í stuði eins og á öðrum börum og veitingastöðum, að sögn Halldórs. Samhliða breytingunni koma þrír nýir inn í eigendahópinn, þeir Daníel Ólafsson, Björgvin Schram og Máni Hafdísarson.
„Við ætlum að bæta í partýinu í staðinn og það eru komnir nýir félagar inn á staðinn á Hverfisgötu. Þar ætlum við bara að halda áfram að selja bestu vín fáanleg mannkyninu og vera með alveg ógeðslega góðan hamborgara,“ segir hann.